Skemmdarverk voru unnin á aðalbyggingu Menntaskólans í Reykjavík í nótt. Óprúttinn aðili gerði sér ferð í miðbæ Reykjavíkur, vopnaður appelsínugulum spreybrúsa og skrifaði 5 stafi á framhlið byggingarinnar.
Sólrún Dögg Jósefsdóttir, inspector scholae Skólafélags Menntaskólans í Reykjavík, segir í samtali við DV að nemendur skólans séu langt frá því að vera ánægðir eftir að hafa séð skemmdarverkin í morgun. „Við erum leið, algjörlega niðurbrotin og forvitin um hver skyldi hafa vegið svona illa að friðaðri byggingu eins og MR,“ segir hún.
Ekki er vitað nákvæmlega hvað óprúttni aðilinn ætlaði að skrifa en MR-ingar eru á því að það standi „L O C A L“ í appelsínugulu stöfunum. Sólrún hefur þó ekki hugmynd um hvað það eigi að þýða eða hvers vegna þetta orð hafi verið skrifað á skólann. Hún er þó viss um að óprúttni aðilinn sé ekki vanur því að munda spreybrúsa.
„Þetta var greinilega einhver sem er ekki vanur því að graffa á hús því þetta var mjög illa framkvæmt. Það var mikið sem lak og svoleiðis, sem er ekki eitthvað sem gerist þegar fólk er vant því að graffa á byggingar. Þannig þetta var greinilega meintur brotavilji gegn MR.“
Sólrún segir að nemendur MR séu ekki í hefndarhug. „Við ætlum allavega ekki að gera eins og Verzlunarskólinn gerði til dæmis fyrr í ár, þegar einhver tók upp á því að kasta eggjum í Verzló og það fyrsta sem þau ákváðu að gera var bara að mæta hingað og eggja MR, þrátt fyrir að enginn MR-ingur hafi kannast við að kasta eggjum í Verzló þessa tilteknu nótt,“ segir Sólrún.
MR-ingar eru því ekki að fara að marsera upp í Ofanleiti vopnaðir spreybrúsum. „Nei við ætlum ekki að gera það, enda erum við gott fólk upp til hópa.“
Að lokum vill Sólrún koma skilaboðum á framfæri. Skilaboðin eru þó ekki til óprúttna aðilans sem spreyjaði á skólann heldur til sóttvarnarlæknis. „Þórólfur, plís ekki loka skólunum.“