Aníta Daðadóttir úr félagsmiðstöðinni Fönix í Kópavogi vann Söngkeppni Samfés sem fór fram fyrr í dag í Laugardalshöllinni, en keppnin var jafnframt sýnd í beinni útsendingu á RÚV.
Í öðru sæti var Benedikt Gylfason frá félagsmiðstöðinni Bústöðum í Reykjavík og í þriðja sæti Elva Björk Jónsdóttir frá félagsmiðstöðinni Eden í Grundarfirði.
Aðrir vinningshafar voru Emma Eyþórsdóttir frá félagsmiðstöðinni Tían í Reykjavík fyrir besta frumsamda lagið og Unnur Elín Sigursteinsdóttir frá félagsmiðstöðinni Aldan í Hafnarfirði var valin Bjartasta vonin.
Salka Sól Eyfeld var kynnir keppninnar, en að þessu sinni kepptu 29 atriði í úrslitum eftir forkeppnir í hverjum landshluta. Í dómnefnd sátu Aron Hannes Emilsson, Dagur Sigurðsson, Hildur Stefánsdóttir, Ragna Björg Ársælsdóttir og Rakel Pálsdóttir.
Aníta á ekki langt að sækja sönghæfileikana, en móðir hennar er söngkonan Regína Ósk Óskarsdóttir, sem hefur meðal annars keppt fyrir hönd Íslands í Eurovision.
Söngkeppnin hefur verið mikilvægur viðburður í starfi Samfés allt frá stofnun samtakanna árið 1985. Á Söngkeppninni gefst unglingum kostur á að koma fram og syngja fyrir framan jafnaldra sína af landinu öllu og ljóst að þúsundir unglinga hafa komið fram í gegn um tíðina.