Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, er einkennilegur fýr – og sumpart einhver mest ótraustvekjandi stjórnmálamaður á Vesturlöndum. Er þó af nógu af taka.
Hann var fréttaritari í Brussels í eina tíð og hafði þá þann sið að skálda upp fréttir um Evrópusambandið sem margar höfðu mikil áhrif. Frægust var sú um bognu bananana. Á endanum var Boris rekin, skáldskapurinn hafði tekið völdin.
Hann hefur þráð að verða formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands. Til að reyna að koma því í kring söðlaði hann um í afstöðu til Evrópusambandsins. Hann var á móti útgöngu Breta úr ESB, en birtist svo sem einn leiðtogi útgöngusinna. Þar komst hann nálægt forsætisráðuneytinu, en þó ekki alla leið.
Nú er Boris Johnson í sviðsljósinu vegna eiturefnaárásarinnar sem hefur spillt svo mjög samskiptum Breta og Rússa. Bretar eru ekki í sérlega sterkri stöðu, en þeim hefur þó tekist að fá nokkurn stuðning frá gömlum bandalagsþjóðum. Þá gengur Boris fram fyrir skjöldu og líkir heimsmeistaramótinu í knattspyrnu næsta sumar við Ólympíuleikana í Hitlers-Þýskalandi 1936.
Það má vel vera að Rússar hafi staðið að eiturefnaárásinni. Böndin berast að þeim. En með blaðri sínu gengur Johnson alltof langt – og veikir stöðu ríkisstjórnar sinnar. Vissulega hafa einræðisstjórnir mikla ánægu af því að setja á svið stór íþróttamót, líkt og til dæmis þegar Kínverjar héldu Ólympíuleikana 2008. En Pútín er ekki Hitler og líkingin er sérlega ógagnleg.