fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Eiríkur vaknaði í eigin uppskurði – „Ég hef reynt að fyrirgefa en get það ekki“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 13. nóvember 2021 09:00

Eiríkur Ómar Sæland. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eiríkur Ómar Sæland er 63 ára gamall garðyrkjufræðingur sem á að baki farsælan starfsferil og gæfuríka ævi. En undanfarin fimm til sex ár hefur hann glímt við mikla erfiðleika í kjölfar læknamistaka.

Mistökin eru tvíþætt og seinni mistökin hefur kerfið ekki viðurkennt og Eiríkur hefur gefist upp á málarekstri eftir að hafa rekist á þykka veggi á þeirri vegferð. Í viðtali í DV-hlaðvarpinu sem hlusta má á í spilara hér fyrir neðan rekur Eiríkur þessa sögu en þar sem engar skjalfestar sannanir eru til um síðari mistökin er sneitt hjá öllum persónugreinanlegum upplýsingum í viðtalinu.

Mistök við hjartaþræðingu leiddu til þess að Eiríkur þurfti að gangast undir bráðauppskurð. Staðhæfir hann að þar hafi mistök við lyfjagjöf leitt til þess að hann vaknaði upp. Eiríkur veit ekki hvað hann var lengi vakandi en dælt var í hann auknum lyfjaskammti og hann sofnaði aftur. Kvalirnar sem hann upplifði í vökunni voru ólýsanlegar:

Eiríkur lýsir atvikinu nánar í DV-hlaðvarpinu, sem og áfallastreituröskuninni sem hefur fylgir honum í dag.

DV hlaðvarpið 2021 e02
play-sharp-fill

DV hlaðvarpið 2021 e02

„Ég vissi ekki fyrst að ég væri á skurðarborði því þetta var akút, ég var tekinn beint úr þræðingu og settur í akút uppskurð. Ég vakna á skurðarborðinu með gríðarlegan sársauka, get staðsett kvalirnar sem voru gríðarlega miklar og ég skildi ekkert í því af hverju þau tóku ekki eftir því að ég var vaknaður. Þau sjá náttúrlega ekki á mér andlitið því ég er í einhverju plasthúsi. Ég gat staðsett þetta allan tímann, ég var með ráði og rænu mestan hluta æðatökunnar í fætinum, sem var skorinn frá ökkla upp í nára. Ég veit ekki hvað þetta tekur langan tíma, að fara með þennan skurð, en mig grunar að þetta hafi verið 15-20 mínútur.“

Eiríkur upplifði ólýsanlegar þjáningar: „Þvílíkt og annað eins og það sem flaug í gegnum huga minn. Ég bara skildi ekki að mennirnir tækju ekki eftir því að ég væri vaknaður. En náttúrulega er ég alveg vöðvaslakaður og ég get ekki hreyft mig. Ég er með öndunartúbu uppi í mér, þannig að ég get ekki sagt neitt og augun á mér eru plástruð aftur. Þannig að mér leið eins og ég væri aðalleikarinn í hrollvekjumynd.“

Áfallastreituröskun helsta verkefnið í dag

Eiríkur segir að aðstoðarsvæfingarlæknir hafi játað fyrir sér að tiltekin lyf hafi vantað í verkjalyfjakokteilinn sem hann fékk fyrir aðgerðina. Eiríkur staðhæfir að lyfið hafi ekki verið skráð í sjúkraskýrsluna en því hafi verið bætt við síðar. Sú sjúkraskýrsla sem Landlæknir hefur undir höndum varðandi meðferð Eiríks inniheldur rétt lyf og Landlæknir hefur ekki tekið undir fullyrðingar hans.

„Það gleymdist að gefa mér langtíma verkjalyf sem voru ekki færð inn á svæfingarskýrslu, sem ég sá hálfu ári seinna, en svo voru þau allt í einu komin inn á svæfingarskýrsluna ári seinna. Svæfingarlæknirinn segir mér að hann hafi gefið mér þetta lyf en ég veit betur af því ég þoldi þjáningarnar. Þetta er ekki rétt með farið hjá honum og það er bara verið að verja sig.“

Eiríkur segir að margir læknar reki upplifun hans í aðgerðinni til drauma og lyfjasvefns en hann segir það fráleitt enda glímir hann við mikla og djúpstæða áfallastreituröskun í dag sem draumar á skurðarborði hefðu ekki kallað yfir hann heldur aðeins raunveruleg upplifun.

Það tók um þrjú og hálft ár fyrir Eirík að ná sér líkamlega eftir uppskurðinn en í dag eru það fyrst og fremst andleg eftirköst sem hann glímir við, þ.e. áfallastreituröskun.

Eiríkur hefur farið í tvær meðferðir við áfallastreitu og er núna í þriðju meðferðinni þar sem áfallastreitan tók sig upp aftur.

Áfallastreita lýsir sér meðal annars í því að sjúklingurinn upplifir aftur áföll sín við tilteknar aðstæður. Eins og gefur að skilja eru læknisheimsóknir Eiríki mjög erfiðar og leiða til þess að hann endurlifir hrylllinginn á skurðarborðinu.

Sálfræðingar eru sérfræðingar í áfallastreitu og hefur Eiríkur notið ómetanlegrar handleiðslu þeirra. „Ég fer eingöngu til fagaðila sem eru sérhæfðir í áfallastreitu,“ segir hann.

Hann segir að áfallastreitu fylgi gífurleg reiði og vanlíðan en allra verst sé að loka þær tilfinningar inni og það er honum nauðsynlegt að tjá sig um reynslu sína. Er hann mjög opinskár um þetta og hefur meðal annars skrifað pistil um áfallastreituna sem birtist hér neðst í greininni. „Það hefur hjálpað mér að tjá mig því að loka reiði inni er það versta sem maður gerir,“ segir Eiríkur.

Áfallastreitunni lýsir hann ennfremur svo í hlaðvarpinu:

„Heilinn ræður ekki við þessa minningu af skurðarborðinu, hún er að hringsóla í höfðinu og trufla allar starfsstöðvar. Við það fer heilinn að gefa röng skilaboð til líkamans og það er ekki gott. Ég finn strax framfarir bara eftir fyrsta klukkutímann hjá sálfræðingi og þeir finna strax út hvað er farið af stað. Þeir hjálpa mér að koma minningunni á réttan stað, í vissu hólfi, og þangað fer minningin eftir hverja meðferð. En hún getur hrokkið út af einhverjum orsökum, farið af stað aftur og truflað líkamsstarfsemi og annað.“

Eiríkur Ómar Sæland. Mynd: Valli

Ljós við enda gangana

„Núna er ég kominn með góðan áfallastreitusérfræðing sem er á breiðara sviði og við tökum þetta núna allt saman og ætlum að reyna að komast fyrir að þetta detti úr þessu blessaða hólfi svona trekk í trekk. En áfallastreitu er ekki hægt að lækna með lyfjum, en það hef ég orðið var við sérstaklega hjá eldri læknum að þeir vilja gefa manni þráhyggjulyf eða geðhvarfalyf,“ segir Eiríkur og segir það firru að áfallastreita sé þráhyggja heldur sé um röskun á starfsemi heilans að ræða.

Endurtekin sálfræðimeðferð skilar árangri og Eiríkur er þrátt fyrir allt bjartsýnn á framtíðina. Hann ætlar sér að ná góðri heilsu aftur. Fyrir utan sálfræðimeðferðina gera útivist og fjallgöngur honum mjög gott. Fyrir utan þá staðreynd að hreyfing er afar góð fyrir líkamann þá eru áskoranirnar sem geta fylgt erfiðum fjallgöngum góð hvíld frá hugarangrinu. Sækir Eiríkur jafnvel í hættur þegar hann fer á fjöll því það er mikil frelsun fyrir hugann að glíma við aðsteðandi hættu í stað þess að sækja í  vonda minningu.

Hér að neðan er pistill sem Eiríkur skrifaði um þrautagöngu sína og birti á Facebook:

Fyrirgefning hatur og reiði !

Mikið rætt um þessi orð í fjölmiðlum þessa dagana

Ég hef átt erfitt með þessi hugtök í um það bil 6 ár kannski ekki hatur en með reiðina og fyrirgefninguna.

Hef þurft á sálfræðimeðferð í þrígang vegna alvarlegra mistaka í hjartaskurðaðgerð.

Eftir hjartaskurðinn þar sem allt fór úrskeiðis, alvarlegustu mistökin að það hafði gleymst að gefa mér langtíma verkjalyf svo ég vaknaði upp í miðri aðgerð við þvílíkan sársauka og ég hélt að þetta væri mitt síðasta og svæfður of grunnt.

Þetta hef ég eftir aðstoðarsvæfingarlækni

Eftir þetta fékk ég áfallastreitu og síðar áfallastreituröskun

Hef ég orðið góður eftir hverja meðferð hjá þessum áfallastreitusérfræðingum

En þetta getur alltaf tekið sig upp aftur

Og nú er ég í þriðju meðferðinni

Ég hef reynt að fyrirgefa en get það ekki og með heiftina líka hvað sem ég reyni og þegar áfallastreitan nær yfirtökunum trekk í trekk magnast reiðin en lætur undan eftir hverja meðferð

Ég get ekki fyrirgefið þessum manni hvað sem ég reyni og hatrið á honum magnast líka þegar áfallastreitan lætur á sér kræla.

Heilinn ræður ekki við þennan sársauka og minningarnar frá skurðarborðinu þar sem ég lofaði sjálfum mér að drepa þá alla ef ég lifði þetta af.

Já þetta eru erfið hugtök að eiga við og margir koma með alls konar hugmyndir hvað sé best

Þetta er búið að hamla mjög mikið lífsgæðum mínum reyni að forðast allt sem tengist atburðinum

Bara við að fara til læknis getur komið áfallastreitunni af stað því þeir voru gerendurnir

Já það er erfit að fyrirgefa pyntingar og þurfa svo að leita til þeirra eftir hjálp.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar sem hefur lent í áföllum hvort sem það eru pyntingar eða nauðganir eða önnur áföll.

Nú er verið að reyna að koma karlinum í lag aftur og kominn í smá bata en þetta tekur alltaf langan tíma og sársaukafullan því það er endalaust verið að fara í gegnum ferlið.

Varð að koma þessu frá mér út af þjóðfélagsumræðunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum
Hide picture