Alríkisdómstóll í Washingtonborg dæmdi á dögunum Scott Fairlamb í 41 mánaða fangelsi fyrir aðkomu sína að óeirðunum í bandaríska þinghúsinu þann 6. janúar síðastliðinn.
Varð hann þar með sá fyrsti til að hljóta dóm fyrir að veitast að lögreglumönnum þennan örlagaríka dag með ofbeldi eða hótunum. Þó nokkrir hafa þó áður verið dæmdir fyrir þátttöku sína í árásinni á þinghúsið, en þá aðeins fyrir að trufla störf þingsins eða virða að vettugi skipanir lögreglumanna.
Saksóknarar höfðu krafist 44 mánaða fangelsisdóms, en dómarinn leit meðal annars til þess að maðurinn hafði tekið myndir af sér með „lokað svæði“ skiltum, sem þóttu sanna ásetning Scotts. Þá hefur Scott áður verið fundinn sekur um afbrot.
Scott viðurkenndi sök fyrir dómi.