Fyrr í dag var greint frá því að fjórar ungar konur lentu í sjónum við Reynisfjöru eftir að hafa verið neðarlega í flæðarmálinu. Þrjár af konunum komust til baka í land en ein drógst út með briminu.
Lögreglan á Suðurlandi greinir nú frá því að konan sem komst ekki til baka í land hafi fundist látin á sjötta tímanum í dag af þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þá kemur einnig fram að rannsóknardeild Lögreglustjórans á Suðurlandi rannsaki nú tildrög slyssins.
Leiðsögumaðurinn David Kelley var með hóp í Reynisfjöru þegar konurnar féllu í flæðarmálinu og var vitni að því. Hann segir í samtali við RÚV að konurnar hafi verið í stórum hóp ferðamanna í fjörunni og að um 150-200 manns hafi verið þar þegar slysið átti sér stað.