Körfuboltaleikmaður í meistaraflokki sem leikur með liði á höfuðborgarsvæðinu finnur nú fyrir miklum einkennum eftir að hafa greinst með Covid-19 veiruna. Frá þessu greinir Fréttablaðið.
Ástæðan fyrir því að leikmaðurinn finnur fyrir þessum miklu einkennum má að öllum líkindum rekja til þess að leikmaðurinn er óbólusettur fyrir veirunni.
Þjálfari liðsins sem leikmaðurinn leikur með staðfesti í samtali við Fréttablaðið að leikmaðurinn sem um ræðir hefur dvalið undanfarið á Sóttvarnarhótelinu í Reykjavík. Þá sagði þjálfarinn að enginn leikmaður eða starfsmaður í liðinu hafi greinst eftir að umræddur leikmaður smitaðist.
Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að sögusagnir hafi verið um að umræddur leikmaður væri inniliggjandi á Landspítalanum vegna kórónuveirusmitsins en þjálfari liðsins segir þær sögusagnir vera rangar. Leikmaðurinn fór þó í skoðun á spítalanum en er kominn aftur á hótelið.