Landsréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms um að karlmaður skyldi sæta gæsluvarðhaldi vegna endurtekinna brota, eða svokallaðri síbrotagæslu. Er maðurinn grunaður um 20 brot, og þar af sjö sem framin voru á skömmum tíma rétt áður en maðurinn var handtekinn og fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Á meðal brota sem maðurinn er grunaður um að hafa framið eru þjófnaður úr þó nokkrum verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Þá er hann grunaður um vopna- og fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslu sinni Smith og Wesson vasahníf og amfetamín sem fundust þegar leitað var á honum í kjölfar handtöku fyrir þjófnað.
Í apríl á þessu ári var maðurinn svo gripinn af erlendum öryggisverði og brást þá ókvæða við. Er maðurinn í gæsluvarðhaldsúrskurðinum sagður hafa ýtt við öryggisverðinum, hrint honum og ógnað. Þá er hann sagður hafa smánað öryggisvörðinn, sem er af erlendu bergi brotnu, með því að hafa öskrað á hann „you fucking foreigner, I’m gonna fuck you up.“ Eru þessi brot mannsins rannsökuð sem líkamsárás, hótanir og hatursorðræða.
Síðar þann sama mánuð er maðurinn sagður hafa hlaupið út úr leigubifreið þegar hún nam staðar og komið sér hjá því að greiða um fjögur þúsund krónur fyrir skutlið.
Þá er maðurinn sagður hafa brotist inn í bifreið í bílageymslu og stolið þaðan Iphone 6 farsíma, greiðslukortum og fleiru. Greiðslukortið straujaði hann svo í verslunum í Reykjavík fyrir um 15 þúsund krónur, að því er segir í úrskurðinum.
Í ágúst er hann svo sagður hafa brotist inn á heimili móður sinnar með því að sparka upp útidyrahurð og valdið þannig skemmdum á hurðinni. Mun hann þá hafa hótað móður sinni lífláti og smánað hana með því að öskra á hana: „fucking mellan þín, ég drep þig.“
Loks er maðurinn grunaður um hylmingu, með því að hafa haft á heimili sínu umtalsvert magn verkfæra og öðru ætluðu þýfi. Hluti af því hafði maðurinn þegar selt á Bland.is, að því er fram kemur í úrskurðinum.
Í greinargerð lögreglunnar segir að maðurinn sé grunaður um alvarleg brot sem sum hver beindust að lífi og líkama einstaklinga. „Það er mat lögreglu að um sé að ræða brotahrinu sem þurfi að stöðva og því sé nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur liggur fyrir,“ segir þar.
Niðurstaða dómara er afdráttarlaus. Í ljósi fjölda brota og alvarleika þeirra, auk sakaferils mannsins sem teygir sig aftur til ársins 2007, var maðurinn úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 30. nóvember. „Það er mat dómara nú að ekki séu efni til annars en að leggja til grundvallar að kærði muni halda uppteknum hætti losni hann úr gæsluvarðhaldi,“ segir í niðurstöðu héraðsdómarans.
Landsréttur staðfesti síðar þann úrskurð héraðsdóms.