Á Íslandi er engin skilgreining til á fátækt meðal barna né opinber stefna eða áætlun um að uppræta fátækt á meðal barna. Það kemur fram í nýrri skýrslu um fátækt barna sem Barnaheill – Save the Children sem Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnisstjóri Barnaheilla, kynnti á morgunverðarfundi í morgun.
Fundurinn bar yfirskriftina „Fátækt barna – hver getur haft áhrif?“ og var haldinn af fræðslu- og forvarnahópnum Náum áttum.
Í skýrslunni er sérstaklega skoðuð þátttaka barna í leikskólum (Early childhood education and care), skólamáltíðir og næring barna, þátttaka í tómstundum, heilsugæsla og húsnæðismál barna og fjölskyldna þeirra. Skoðuð er sú þjónusta sem börnum stendur til boða og kostnaður fjölskyldna.
Ísland er eina þátttökulandið sem hefur enga skilgreiningu á fátækt meðal barna. Jafnframt er engin opinber stefna eða áætlun á Íslandi um að uppræta fátækt meðal barna, né þátttöku þeirra.
12,7% barna á Íslandi eiga á hættu að búa við fátækt og er sú tala sú lægsta af þeim löndum sem tóku þátt í gerð skýrslunnar. Albanía mælist með mestu fátækt meðal barna þar sem 49,4% barna býr við fátækt. Margrét Júlía bendir á að nýjustu tölur séu frá árinu 2019 og því geti staðan hafa breyst eftir tilkomu Covid-19.
Þeir hópar barnafjölskyldna á Íslandi sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir fátækt og félagslegri einangrun eru einstæðir foreldrar, fjölskyldur með lágar tekjur, fjölskyldur með fötluð börn, fjölskyldur þar sem foreldri er á örorkubótum, flóttabörn og börn í fjölskyldum sem búa við erfiðar félaglegar aðstæður.
90% foreldra á örorkubótum á Íslandi segja bæturnar ófullnægjandi, 80% geta ekki mætt óvæntum útgjöldum, 22% segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börn sín og 19% ekki geta greitt fyrir frístund eða tómstundir barna sinna.
„Kostnaður við húsnæði er einn stærsti útgjaldaliður fjölskyldna á Íslandi og búa margar þeirra við óöryggi, þröngan húsnæðiskost og í óviðunandi húsnæði.
Við þessu þarf að bregðast. Ekkert barn á að þurfa að alast upp við ótryggar húsnæðisaðstæður,“ segir Margrét Júlía.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi fylgjast með stöðu barna og hafa áhyggjur af því að ójöfnuður meðal barna aukist vegna atvinnuleysis sökum Covid-19. Í janúar 2021 var atvinnuleysi 8,2% samanborðið við 4,8% í janúar 2020. Skráð atvinnuleysi var þó komið niður í 5% í september 2021, en of snemmt er að segja til um hvernig þróunin verður og áhrifin á börn og barnafjölskyldur. Atvinnuleysi hefur sérstaklega mikil áhrif á lágtekjufjölskyldur og þær eiga því helst á hættu að lenda í fátækt og félagslegri einangrun.
Áhrif Covid-19 á andlega heilsu barna og aðstæður í fjölskyldum er töluverð. Tilkynningar til barnavernda á Íslandi um vanrækslu jókst um 20% frá mars 2020 til mars 2021, tilkynningar um ofbeldi um 23%, áhættuhegðun barna um 3% og gruns um að líf og heilsa ófæddra barna væri í hættu um 68%.