fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Sárþjáður drengur kemst ekki í aðgerð vegna óbólusettra – Sex dagar á morfíni og án foreldra

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 10. nóvember 2021 12:24

Drengurinn hefur legið inni á sjúkrahúsinu á Akranesi og beðið eftir að komast í aðgerð síðan slysið bar að. Þar má enginn heimsækja hann. mynd/Pjetur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Drengurinn sem fótbrotnaði á Langjökli síðastliðinn laugardaginn liggur enn á Sjúkrahúsinu á Akranesi með brotinn sköflung og hefur ekki komist í aðgerð síðan. Drengurinn er 19 ára gamall. Faðir drengsins segir hann sárþjáðan og að hvorki hann né móðir drengsins hafi mátt hitta hann og hafa því aðeins verið í símasambandi við drenginn eftir slysið.

Á laugardaginn síðastliðinn var 19 ára drengur í jeppaferð með vinum sínum á Langjökli þegar slys bar að. Hann lá, sköflungurinn brotinn. Björgunarsveitir voru kallaðar til og vinum stráksins sagt að hreyfa hann ekki af ísnum. Þegar drengurinn var orðinn kaldur og blár á vörum rifu vinir hans framsæti úr einum bílnum og og komu þeir þannig fótbrotnum vini sínum fyrir í bílnum og óku af stað með hann niður af jöklinum, á móti björgunarsveitum.

Drengurinn var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi þar sem hann hefur legið síðan. Fjölskylda drengsins býr í Reykjavík og til stendur að framkvæma aðgerð til þess að laga beinbrotið á Landspítalanum í borginni.

„Fölur af kvölum“

Fimm dagar eru nú liðnir frá slysinu, og drengurinn enn ekki komist í aðgerð. Í samtali við DV segir faðir drengsins, sem vildi ekki koma fram undir nafni, hann sárkvalinn. „Hann liggur þarna lokaður í einangrun í einhverju herbergi. Það er bara dælt í hann morfíni og allt gert til þess að minnka kvalirnar, en það er ekkert hægt að heimsækja hann eða fara til hans,“ segir hann. „Hann liggur bara þarna fölur af kvölum.“

„Við höfum fengið að fara með dót til hans sem hann hefur viljað fá til sín, en það er bara tekið við því í anddyri sjúkrahússins og okkur vísað frá. Annað virðist ekki vera til umræðu. Mamma drengsins bauðst til þess að fara í Covid próf á undan en það var ekki í boði,“ segir hann.

„Þó hann sé 19 ára gamall, þá er hann auðvitað bara krakki og manni er farið að líða ansi illa með þetta. Ég hef aldrei brotið á mér sköflunginn, en mér er sagt að þetta sé eitt það versta sem hægt sé að brjóta í sér. Beinið er bara í sundur,“ segir hann enn fremur.

Meira og minna fastað í 4 daga vegna aðgerða sem ekkert varð af

Ítrekað hefur staðið til að senda strákinn í aðgerð, en hann ekki komist að enn. „Hann má ekkert borða 12 klukkustundum fyrir aðgerðina, svo hann er meira og minna búinn að vera fastandi í 4 daga. Honum er sagt að hann sé að fara að komast að, og hann fastar, en svo klikkar það,“ útskýrir faðirinn.

Þá segir hann að sonur hans hafi fengið tíma í aðgerð seinni partinn á morgun. Þá verða sex dagar liðnir frá slysinu. „Sex dagar eru ansi mikið,“ segir faðirinn áhyggjufullur. „Það getur reyndar allt breyst og okkur sagt að þessi tími sé ekkert 100%.“

„Ég átta mig á því að þetta er „bara“ beinbrot og eflaust eru aðrir að bíða eftir að komast í hjartaþræðingar og eru þá í lífshættu jafnvel,“ segir faðirinn, en kemst ekki lengra með setninguna, augljóslega mikið niðri fyrir.

Krossleggja fingur að drengurinn komist í aðgerð á morgun

Tíminn á morgun er þó í fyrsta skipti sem þau fá formlegan tíma, og bindur fjölskyldan vonir við að hann rætist og að þjáningar sonar hans taki enda á morgun, eftir hádegi. Ef svo fer, verður sonur hans þá keyrður í sjúkrabíl frá Akranesi til Reykjavíkur, en þangað fær hann ekki að fara fyrr.

„Hann fær ekki að fara á spítala í borginni, því þar er ekki pláss. Spítalinn er bara fullur af fólki sem vill ekki láta bólusetja sig,“ segir faðirinn. „Maður krossleggur auðvitað fingur bara að hann komist í aðgerðina á morgun. Þá kemst hann loksins heim til sín.“

„Það er ekkert stærra en mömmuhjartað“

Faðirinn segir hann og móður drengsins vera verulega ósátt við hvernig kerfið hafi brugðist við, en tekur þó fram að hann sé ekki að áfellast starfsfólk sjúkrahússins á Akranesi eða spítalans.

Aðspurður hvernig drengurinn beri sig svarar faðir hans einfaldlega: „Hann er bara sárþjáður.“ Hann segist jafnframt hafa áhyggjur af móður drengsins. „Það er ekkert stærra en mömmuhjartað. Þetta er bara mjög erfitt. Þetta er búið að taka verulega á að vera í svona óvissu. Það er ekkert hægt að gera. Maður er bara númer í röðinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Efling segir SVEIT ætla að njósna um starfsfólk veitingahúsa og hefur kært félagið til Persónuverndar

Efling segir SVEIT ætla að njósna um starfsfólk veitingahúsa og hefur kært félagið til Persónuverndar
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Fíkniefnaneysla meginorsök banaslyssins í Lækjargötu

Fíkniefnaneysla meginorsök banaslyssins í Lækjargötu