Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, frambjóðandi til embættis formanns Kennarasambands Íslands (KÍ), kynjafræðikennari við Borgarholtsskóla og aktivisti, tjáir sig um niðurstöður formannskosningarnna hjá KÍ, en hún hlaut þar ekki brautargengi, var Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, kjörinn formaður.
Framboð Hönnu Bjargar vakti mikinn áhuga í samfélaginu, sérstaklega á meðal fólks sem er virkt í jafnréttisbaráttunni. Frumkvæði Hönnu Bjargar við að vekja athygli á meintum kynferðisbrotum innan knattspyrnuhreyfingarinnar hefur vakið þjóðarathygli. Hún hefur einnig beitt sér mjög fyrir innleiðingu jafnréttissjónarmiða innan skólakerfisins og útbreiðslu kynjafræði.
Í pistli sem Hanna Björg birtir í kjölfar kosningaúrslitanna hjá KÍ staldrar hún við þá staðreynd að stærsta kvennastétt landsins, kennarastéttin, hafi hafnað konu í formannskosningunum:
„Þá er þessum kafla lokið. Ég tapaði. Auðvitað er ég aum, súr og spæld en ég verð fljót að jafna mig. En ég er líka hugsi. Stærsta kvennastétt á Íslandi hafnar konum, aftur og aftur og aftur. Einkum og sér í lagi femíniskri konu. Þar sem ég er helst þekkt fyrir jafnréttisstarf mitt í skólakerfinu, þá hef ég áhyggjur. Hver er staða jafnréttismála í skólum landsins? Ég hef sagt og segi enn, skólakerfið er annað hvort hluti af vandanum eða lausninni. Það verður aldrei jafnrétti á Íslandi ef skólakerfið er ekki virkur aðili í þeirri vegferð. Hverjar eru horfurnar? Sú staðreynd að ég er umdeild vegna jafnréttisvinnu minnar – segir okkur að jafnréttishugsjónin er umdeild og hvernig komumst við þá áfram?“
Hanna Björg ávarpar kennara í pistli sínum og segist vona að niðurstaða kosninganna sé ekki vísbending um viðhorf þeirra til innleiðingar jafnréttishugsjónarinnar í skólakerfið. Hún óskar verðandi formanni jafnframt farsældar í starfi:
„Við kennara vil ég segja, ég vona að niðurstaða kosninganna sé ekki vísbending um viðhorf ykkar til innleiðingar jafnréttishugsjónarinnar í skólakerfið. Við ykkur hin vil ég segja – við eigum enn langt í jafnréttislandið og paradísina.
Ég er stolt af kosningabaráttunni minni sem var heiðarleg, einlæg og málefnaleg. Ásýnd baráttu minnar undanfarið má þakka minni hæfileikaríku og heilt yfir framúrskarandi samstarfskonu Unni Gísladóttur. Takk Unnur fyrir alla hjálpina, hvatninguna og öxlina. Án þín hefði ekki verið kosningabarátta hjá þessari konu hér.
Takk innilega þið 1083 kennarar sem kusuð mig, Auðmjúkar þakkir fyrir öll fallegu orðin, einlæga stuðninginn og allt peppið frá fjölskyldunni minni, vinum og þeim sem ég þekki ekki neitt – ég bý að þessu alla ævi.
Ég óska kennarastéttinni þess að vera sameinuð og sterk, og ég óska verðandi formanni farsældar í starfi.“