Sólstormur verður þegar öflugt gos verður á sólinni með þeim afleiðingum að hún sendir mikið magn orkumikilla rafagna til jarðarinnar. Sólstormar fylgja 11 ára hringrás.
Internetleiðslur heimsins tengjast hverjar öðrum meðal annars um neðansjávarkapla. Ef þessir kaplar verða fyrir rafögnum frá sólstormi þá geta þeir orðið óvirkir og það getur tekið marga mánuði að laga þá.
„Eins og staðan er núna þá erum við ekki með neinar áætlanir um hvernig við bregðumst við ef sólstormur eyðileggur netkapla. Við erum óundirbúin,“ sagði Sangeetha Abdu Jyothi, hjá Kaliforniuháskóla, í samtali við Wired en hún stendur að baki rannsókninni.
Í raun eru það ekki sjálfir netkaplarnir sem eru í hættu heldur svokallaðir „boosters“ sem halda netsambandinu stöðugu og góðu á þeim löngu leiðum sem merki eru flutt en oft eru netkaplarnir mörg þúsund kílómetra langir. Þeir eru mjög viðkvæmir fyrir rafögnum frá sólstormi. Þeim mun lengri sem netkaplar eru, þeim mun viðkvæmari eru þeir og „boosters“ fyrir sólstormum því það þarf fleiri „boosters“ til að tryggja gagnaflutning um kaplana. Þessir „boosters“ þurfa rafmagn og því hafa rafmagnskaplar verðið lagðir við hlið netkaplanna til að tryggja þeim straum. Þessir rafmagnskaplar geta eyðilagst í sólstormi.