130 Covid smit eru nú rakin til skemmtunar á Akranesi og hundruð hafa þurft að dvelja, eða dvelja enn, í sóttkví vegna viðburðarins að því er fram kemur í frétt RUV um málið. Skólahald var um tíma fellt niður á Akranesi vegna málsins.
Viðburðurinn vakti umtalsverða athygli á sínum tíma, og þá helst fyrir skrautlega markaðssetningu, en auglýsingin fyrir viðburðinn sem birtist á Facebook hljómaði svona:
Það er loksins komið að því! Karaoke kvöööld, óóóóooooo
Þetta verður sniiild, óóóóoooo
Neeeinei við erum að föndra
Um svokallað „karaokebúningakvöld“ var að ræða.
Á Vesturlandi öllu eru nú 173 smitaðir í einangrun og 206 í sóttkví. Langflest smitin eru í póstnúmeri Akraness eða 132. Í samtali við RUV staðfestir Þórir Bergmundsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og umdæmissóttvarnalæknir Vesturlands, að smitin megi rekja til „karaoke-skemmtunar“ síðastliðna helgi. Flestir smitaðra eru á aldrinum 18-30 ára.
Metfjöldi smita greindist hér á landi í gær, eða 168 talsins. Samtals eru 1.260 í einangrun 2.216 í sóttkví. Blessunarlegu eru þó aðeins 18 á sjúkrahúsi, að því er kemur fram á Covid.is.