Á Facebook sölusíðunni Brask og brall.is er nú til sölu 34 ára gamall Lotus Esprit Turbo HCI, árgerð 1987. Í auglýsingunni segir að bíllinn hafi verið „endursmíðaður skrúfu fyrir skrúfu“ fyrir 11 árum, og að hann sé skráður fornbíls.
„Þetta er sería 3 af Esprit og er HCI það er með beinni innspítingu og voru eingöngu 200 bílar framleiddir þannig, mjög sjaldgæfur bíll sem að mun bara hækka í verði,“ segir í auglýsingunni. Þá fylgja með kagganum ný dekk, nýjar olíur, vökvar og yfirferð frá því í vor.
Ekki er óalgengt að fornbílar gangi kaupum og sölum á hinum ýmsu Facebook síðum. Öllu óalgengara er verðmiðinn, en seljandi hins 34 ára gamla Lotus vill nefninlega fá heilar 10.990.000 íslenskar krónur fyrir bílinn. „Svona bíll í þessu ástandi og sérstaklega síðasta árgerð með beinni innspýtingu kostar mikið og hækkar hratt,“ segir seljandinn um verðmiðann í auglýsingunni.
Í auglýsingunni má jafnframt sjá fleiri myndir af sleðanum.