fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Loksins tókst Biden að koma innviðapakkanum í gegnum þingið – Fjárfestingar upp á 1.000 milljarða dollara

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 8. nóvember 2021 06:59

Bandaríska þinghúsið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á föstudaginn samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings svokallaðan innviðapakka. Þessi pakki hefur verið Joe Biden, forseta, mikið kappsmál enda eitt af kosningaloforðum hans. Samkvæmt pakkanum þá verður 1.000 milljörðum dollara varið til uppbyggingar innviða í Bandaríkjunum á næstu árum. Þingmenn úr röðum Demókrata og Repúblikana studdu frumvarpið. Enn á þó eftir að koma öðrum hlutum af heildarpakka Biden í gegnum þingið en ákveðin mótstaða er við þá innan Demókrataflokksins.

Þingið hafði haft innviðapakkann til meðferðar mánuðum saman en deilur innan Demókrataflokksins, sem er með meirihluta í bæði fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, töfðu framgang hans. En á föstudagskvöldið tókst loksins að koma pakkanum í gegnum fulltrúadeildina en töluvert er um liðið síðan öldungadeildin samþykkti hann.

Biden sagði samþykkt innviðapakkans vera sögulega. „Í kvöld tókum við risastórt skref fram á við fyrir þjóðina. Næstu kynslóðir munu geta litið til baka til þessarar stundar og sagt að það hafi verið hér sem Bandaríkin sigruðu efnahagskapphlaup 21. aldarinnar,“ sagði hann.

Samþykkt innviðapakkans er kannski kærkomin vítamínsprauta fyrir Biden en stuðningur þjóðarinnar við hann hefur farið hraðminnkandi að undanförnu.  Klúðurslegt brotthvarf hersins frá Afganistan, hækkandi matvælaverð og tafir við afgreiðslu innviðapakkans hafa valdið honum vandræðum.

Í síðustu viku töpuðu Demókratar ríkisstjóraembættinu í Virginíu til Repúblikana en Biden vann öruggan sigur í ríkinu í forsetakosningunum á síðasta ári. Tapið hefur haft í för með sér mikla gagnrýni á Biden og margir hafa bent á að vandræði Demókrata á þinginu í Washington hafi átt stóran hlut að máli varðandi úrslit kosninganna. Biden, og eflaust fleiri, vonast því til að samþykkt innviðapakkans létti aðeins þrýstingi af forsetanum, að minnsta kosti um stundarsakir.

Pakkinn mun fjármagna endurbætur á innviðum um öll Bandaríkin og uppbyggingu nýrra. Brýr, vegir, stíflur, almenningssamgöngur og betra netsamband eru meðal þess sem peningar verða settir í. Einnig verður komið upp hleðslustöðum fyrir rafbíla.

228 studdu frumvarpið en 206 voru á móti. Rúmlega 10 Repúblikanar greiddu atkvæði með pakkanum og telja stjórnmálaskýrendur það vera mikinn sigur fyrir Biden og verkefni hans um að reka pólitík þvert á flokkana tvo á þinginu en óhætt er að segja að djúp gjá sé á milli þeirra í flestum málum.

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana á þingi, greiddi atkvæði með innviðapakkanum en Washington Post segir að hann og þeir Repúblikanar, sem studdu frumvarpið, megi eiga von á hörðum árásum frá Donald Trump á næstu vikum fyrir að hafa greitt atkvæði með pakkanum.

Samhliða vinnu við innviðapakkann hefur þingið unnið að hinu svokallaða Build Back Better-plan en í því felst að milljörðum dollara verður veitt til loftslagsmála og félagslegra mála í Bandaríkjunum. Það hefur ekki reynst Biden auðvelt að koma því í gegn því svokallaðir „hófsamir þingmenn“ í Demókrataflokknum hafa komið í veg fyrir afgreiðslu þess. Ein mesti gagnrýnandi þess og andstæðingur er Joe Manchin, frá Vestur-Virginíu. Hann hefur sagt að frumvarpið sé allt of dýrt og þess vegna vilji hann stöðva það. Hann hefur hins vegar ekki hátt um að hann hefur fjárfest mikið í kolaiðnaðinum í heimaríki sínu og á því mikilla hagsmuna að gæta við að koma í veg fyrir að Bandaríkín dragi úr kolanotkun.

New York Times segir að meirihluti þingmanna í fulltrúadeildinni hafi samþykkt að greiða frumvarpinu atkvæði sitt og verður það væntanlega gert um miðjan mánuðinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“