„Nú ætla ég ekki að þykjast vera einhver David Attenborough en ég get þó sagt, með nokkurri vissu, að kettir eru stórkostlega merkileg dýr. Þeir eru sjálfstæðir, einstakir og skemmtilegir.“
Svona hefst pistill sem fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann skrifar en pistillinn birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Í pistlinum ræðir Logi um eitt af hitamálum vikunar, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar að banna lausagöngu katta.
Í upphafi pistilsins bendir Logi á jákvæðu hliðarnar sem fylgja því að eiga gæludýr eins og ketti. „Það hefur verið sýnt fram á með fjölda rannsókna að gæludýr styrkja ónæmiskerfi. Ekki síst kettir sem fá að fara út. Þeir minnka líkur á ofnæmi og astma. Fyrir utan að fólk sem á ketti er almennt með lægri blóðþrýsting, líður betur og kvíðir minna. Kettir hafa líka mjög góð áhrif á fólk með Alzheimer. Svo gerir það börnum gott að alast upp með dýrum. Það vita allir,“ segir hann.
„En umfram allt eru þeir frjálsir. Þeir eru frjálsir til að tala við eigendur sína þegar þeir vilja, þeir eru frjálsir til að leggja sig þar sem þeim hentar og þeir eiga að vera frjálsir til að fara út þegar þeir vilja.“
Logi segir að þetta ættu allir að skilja. „En svo óheppilega vill til að sjö af ellefu bæjarfulltrúum Akureyrar virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því. Þar var í það minnsta samþykkt að kettir þurfi nauðsynlega að vera inni. Lausaganga katta er sem sagt bönnuð á Akureyri,“ segir hann.
„Í þessu er svokallað sólarlagsákvæði sem þýðir að reglurnar taka ekki gildi fyrr en eftir þrjú ár. Það kemur reyndar ekki fram hvað eigi að gera við útikisa þá. Það er í það minnsta ljóst að á sumum heimilum verður ekki svo gott að opna glugga.“
Logi segir þessa ákvörðun bæjarstjórnarinnar vera vitleysu og að honum sé ekki sama. „Mér er ekki sama þegar fólki dettur svona vitleysa í hug. Í fyrsta lagi er ég kattavinur og tel mig skilja þessi dýr og í öðru lagi er ég tengdasonur Akureyrar og hef tekið það hlutverk alvarlega. Það er reyndar óvíst að ég endist lengi sem slíkur ef þetta ágæta fólk ætlar að taka upp á því að elta Húsvíkinga í þessari vitleysu,“ segir hann.
Þá gagnrýnir hann vinnubrögð bæjarstjórnarinnar. „Það er varla hægt að segja frá vinnubrögðunum við þetta. Þeim fannst nefnilega svo flókið að finna skilgreiningar þegar þau ætluðu að breyta samþykkt um kattahald að það var bara ákveðið að banna lausagöngu katta alveg. Það eru aldrei góðar fréttir þegar yfirvöld ákveða að banna eitthvað af því að það er svo „flókið“ að finna lausn á því.“
Logi fer þá yfir ástæðurnar sem fólk nefnir til stuðnings við bann á lausagöngu katta. „Helstu ástæðurnar munu vera að kettir séu að pissa og kúka í blómabeð og þeir veiði fugla. Nú verð ég að nefna, hafi það farið framhjá ykkur, að flestir kettir gera stykki sín heima hjá sér og ef þeir gera það annars staðar þá moka þeir yfir. Flest önnur dýr láta það ógert,“ segir hann og veltir fyrir sér hvort bæjarfulltrúarnir hafi kannski líka hugsað sér að banna lausagöngu og flug gæsa.
„Það eru nú aldeilis raðskítandi sóðafuglar.“
Þegar rætt er um lausagöngu katta benda margir á að kettir séu rándýr og að þau veiði fugla. „Það er vissulega rétt að kettir eru rándýr. Þeir eiga það til að veiða fugla sem þeir færa eigendum sínum gjarnan. Það er leiðinlegt og stundum pínu sorglegt en svona er náttúran. Þetta er ekki gerendameðvirkni. Þetta er eðli þeirra en það er hægt að gera þeim erfiðara fyrir með bjöllum og litríkum kraga,“ segir hann.
„En mig langar til að benda Akureyringum á eitt: Ef þið hafið svona miklar áhyggjur af fuglum þá get ég bent ykkur á ýmislegt annað sem drepur fugla. Mér dettur til dæmis í hug skotveiðimenn, en líka flugvélar. Kannski sérstaklega flugvélar sem fljúga á flugvöll sem er staðsettur við eitt stærsta varpland Reykjavíkur, Vatnsmýrina. Það hefur nefnilega lengi verið eitt helsta baráttumál Akureyringa að flugvöllurinn í Reykjavík þurfi að vera límdur við miðbæinn.“
Að lokum segir Logi að hann sé til í að gera samning. „Nú má kannski efast um umboð mitt til samninga. En ég er samt til í að gera samning við meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar,“ segir hann.
„Við Reykvíkingar skulum hafa þennan flugvöll sem þið viljið endilega hafa í miðbænum okkar, gegn því að þið leyfið köttum að hafa sína hentisemi. Því þannig á það að vera.“