Svava Kristín Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi blaðamaður Mannlífs, birti í gærkvöldi yfirlýsingu þar sem hún sakar Reyni Bergmann, áhrifvald og eiganda Vefjunnar, um að hafa tekið skilaboð sem hún sendi á meintan þolanda hans og breytt þeim sér og sínum málsstað í hag. „Reynir Bergmann þarna gengur þú of langt ! Lætur nafngreina mig fyrir texta sem þú ert sjálfur búin að búa til. Hér er rétti textinn kallinn minn og hættu að þykjast vera fórnarlamb!,“ skrifar Svava Kristín í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni og krefst þess að Reynir taki þau úr birtingu. Þá lætur hún fylgja með skjáskot af samtölunum sem umræðir. Áður hafði Reynir þvertekið fyrir þær ásakanir og sagst hvorki hafa gáfur né tíma til að dunda sér við slíkt föndur.
Um fátt hefur verið meira rætt undanfarna viku en færslu Reynis á samfélagsmiðla þar sem hann birti samskipti vinkonu sinnar og fyrrverandi hjásvæfu þar sem ónafngreindur blaðamaður var að reyna að fá hana til þess að saka Reyni um kynferðislegt ofbeldi. Hélt Reynir því fram að um herferð gegn sér væri að ræða þar sem skipulega væri reynt að fá konur til að stíga fram og saka hann um ofbeldi. Sagði hann baráttu aktivísta í nafni metoo vera farna að snúast upp í andhverfu sína.
Í kjölfar færslu Reynis og frétta fjölmiðla af henni fór að bera á því að Svava Kristín væri nafngreind í athugasemdakerfum og á öðrum samfélagsmiðlum.
Þá fóru netverjar einnig að halda því fram að samskiptin væru sviðsett og voru nokkrar vísbendingar taldar benda til þess. Meðal annars að Reynir sjálfur, blaðakonan og gamla vinkonan, geri öll bil á undan spurningarmerki, vinkonan og Reynir skrifi bæði „segja“ sem „seigja“ og skrifi „eitthvertíman“ í staðinn fyrir einhvern tímann, svo dæmi séu tekin.
Eins sé óvenjulegt að tala um kynferðisofbeldi sem „alvarlega nauðgun“ og svo þótti mörgum grunsamlegt að blaðakonan tali um „kynfærislegt“ ofbeldi í staðinn fyrir að segja „kynferðisofbeldi“ en því er haldið fram að Reynir sjálfur hafi stundum notað einmitt þetta orð, „kynfærislegt“.
Nú hefur svo blaðamaðurinn Svava Kristín stigið fram og staðfestir að hún hafi vissulega sent vinkonu Reynis póst. Hins vegar sé búið að breyta póstinum verulega og birtir hún skjáskot sem hún telur sanna mál sitt. Þegar DV óskaði eftir nánari upplýsingum barst eftirfarandi svar frá Svövu Kristínu þar sem hún beinir orðum sínum að Reyni.
„Ég vil bara koma því á framfæri að hann skal ekki voga sér að hafa mig fyrir bullinu úr sjálfum sér. Hann skaut sig hressilega í fótinn þarna. Reynir hefur talað um að hann eigi börn og fjölskyldu og það eigi því ekki að birta neitt slæmt um hann, sama hvað hann gerir eða segir. Hann fattar það ekki að hann þarf að haga sér eins og hann eigi fjölskyldu en ekki setja ábyrgðina yfir á aðra. Eins og sjá má hikar hann ekki við að taka mitt mannorð og rústa því með lygum og augljóslega tilbúnum texta sem er svo remixaður með mínum skilaboðum, en auðvitað allt óhentugt tekið út….. Reynir Bergmann þú ættir að skammast til þess að biðja mig afsökunar opinberlega því ég á börn og fjölskyldu ! Þetta er svo lágkúrulegt af þér að það hálfa væri nóg. Vonandi opnar fólk augun vinur og sér þig í rétti ljósi, ljósi sem enginn annar en þú varpaðir á sjálfan þig.“
Yfirlýsing Svövu Kristínar: