Ingrid Kuhlman er formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð. Þegar faðir hennar var sextugur greindist hann með illkynja heilaæxli og gekk í gegnum þjáningarfulla geislameðferð. Faðir Ingrid kaus að deyja með reisn í stað þessa að framlengja þjáningar sínar og var Ingrid viðstödd er faðir hennar fékk þess ósk sína uppfyllta og fékk að deyja heima með aðstoð læknis.
Þetta kemur fram í þættinum Undir yfirborðinu sem er á dagskrá Hringbrautar í kvöld kl. 20, en þar ræðir Ásdís Olsen við Ingrid, meðal annars um muninn á dánaraðstoð og líknandi meðferð, sem beitt er hér á landi, en Ingrid telur þann kost síður mannúðlegri en dánaraðstoð, enda er yfirleitt tekin ákvörðun um líknandi meðferð án samráðs við sjúklinginn.
Sem betur fer fékk faðir Ingrid og móðir hennar að eiga eitt og hálft gott ár saman eftir að hann greindist með krabbameinið en síðan tóku við erfiðir tímar. Því miður var beitt of harðri geislameðferð sem hafði í för með sér meiri þjáningar en nauðsyn bar til. Áður en kom að því að hann tók þessa ákvörðun voru þjáningarnar orðnar lítt bærilegar og engin von var um bata.
Faðir Ingrid var búsettur í Hollandi og þar gilda önnur lög um dánaraðstoð en hér á landi. Ingrid ræðir þessi mál og segir sögu föður síns á Hringbraut kl. 20 í kvöld en í spilaranum hér að neðan er stutt brot úr þættinum: