Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að nýjar samkomutakmarkanir sem samþykktar voru á ríkisstjórnarfundi í morgun séu tiltölulega vægar. Farið er úr 2.000 manna samkomuhámarki niður í 500. Grímuskylda er tekin aftur upp á samkomum og í verslunum og 1 metra reglan er aftur í gildi. Þetta kom fram í viðtölum fjölmiðla við Svandísi fyrir utan ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem hertar aðgerðir voru samþykktar.
Harkalegustu takmarkanirnar eru væntanlega á skemmtistöðum en þeir þurfa nú að loka kl. 23 á kvöldin og síðasti gestur þarf að fara út á miðnætti.
Hertu reglurnar taka að mestu gildi á miðvikudag en grímuskyldan tekur gildi strax á morgun, laugardaginn 12. nóvember.
Svandís sagði aðspurð að skiptar skoðanir hefðu verið um hertar reglur en taldi að sá ágreiningur myndi þó ekki hafa áhrif á stjórnarmyndunarviðræður.
167 smit greindust í gær sem er mestu fjöldi á einum degi frá upphafi faraldursins. Af þeim voru 122 utan sóttkvíar og er það líka mesti fjöldi greindra utan sóttkvíar frá upphafi faraldursins.