Birna Bragadóttir hefur tekið við formennsku í stjórn Ljósleiðarans, fjarskiptafyrirtækis sem lagt hefur ljósleiðaratengingar til fleiri en 100 þúsund heimila á Íslandi og er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Birna hefur átt sæti í stjórn fyrirtækisins, sem áður hét Gagnaveita Reykjavíkur, frá árinu 2019.
Birna er forstöðukona Elliðaárstöðvar, sögu- og tæknisýningar OR í Elliðaárdal. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu á sviði stjórnunar, mannauðs- og jafnréttismála, breytingastjórnunar og markaðs- og þjónustustjórnunar. Þá er hún mikilvirk útivistarkona og var á meðal kvennanna sem kalla sig Marglytturnar og syntu yfir Ermarsund árið 2019.
Birna hefur starfað sem framkvæmdastjóri Sandhotel, starfsþróunarstjóri OR og við mannauðs-, fræðslu- og þjónustustjórnun hjá Icelandair. Hún er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA-gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands. Hún er jafnframt stjórnendamarkþjálfi frá Coach University. Birna er einnig stjórnarformaður Hönnunarsjóðs.