„Núna upplifum við aðallega faraldur meðal óbólusettra og hann er stór,“ sagði hann á fréttamannafundi.
83 milljónir búa í Þýskalandi sem er fjölmennesta ríki Evrópu. Þar hefur fjórða bylgja kórónuveirufaraldursins geisað síðustu vikur og á síðustu dögum hafa dánartölur náð sama stigi og var þegar verst lét í maí. Á þriðjudaginn greindust 20.398 smit og 194 létust.
Tæplega 80% landsmanna, 18 ára og eldri, hafa lokið bólusetningu.
Spahn lét í ljós óánægju sína með að stór hluti þeirra, sem hafa ekki látið bólusetja sig, hafa ekki í hyggju að gera það.
„Fyrir óbólusetta er mikil hætta á að þeir smitist á næstu mánuðum,“ sagði Lothar Wieler, forstjóri Robert Koch smitsjúkdómastofnunarinnar.
Spahn sagði að á þeim svæðum þar sem ástandið sé verst eigi að taka upp kröfur um að fólk hafi lokið bólusetningu eða sé að jafna sig eftir smit. Þessi stefna er nefnd 2G í Þýskalandi. „Þetta snýst ekki um að kúga óbólusetta. Þetta snýst um að koma í veg fyrir að álagið á heilbrigðiskerfið verði of mikið,“ sagði hann.