Í ágústmánuði sumarið 2018 lenti saman tveimur aðsópsmiklum en ólíkum konum á veitingastaðnum Cafe Benzin við Grensásveg, þeim Margréti Friðriksdóttur og Semu Erlu Serdar.
Þeim hefur ekki borið saman um atvikið en Sema Erla kærði Margréti fyrir hatursglæp í kjölfarið.
Í ágúst árið 2020 tjáði Sema Erla sig um málið og gagnrýndi lögreglu fyrir seinagang við rannsókn þess. Hún sagði meðal annars í pistli á Facebook-síðu sinni:
„Um verslunarmannahelgina voru tvö ár síðan ráðist var á mig með líkamlegu ofbeldi og ítrekuðum morðhótunum fyrir utan veitingastað í Reykjavík. Ástæðan fyrir árásinni var ég. Það er að segja hver ég er, hvaðan og hver lífssýn mín er.“
Margrét gekkst við því á sínum tíma að hafa veist að Semu Erlu þetta kvöld en neitaði því að um líkamsárás eða hatursglæp hefði verið að ræða.
Málið hefur nú verið fellt niður en Margrét birti í gærkvöld á Facebook bréf frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þess efnis. Samkvæmt bréfinu var kæruefnið hótanir. Í bréfinu segir að rannsókn málsins hafi verið hætt á grundvelli laga um meðferð sakamála, nánar tiltekið fjórðu málsgreinar 52. greinar laganna. Hún er eftirfarandi:
„Lögregla vísar frá kæru um brot ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn út af henni. Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin.“