fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Eyþór er hissa á að Borgarlínan sé ekki nefnd í nýrri fjárhagsáætlun borgarinnar

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 3. nóvember 2021 09:00

Eyþór Arnalds

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær var ný fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar til næstu fimm ára tilkynnt. Samtímis var því fagnað að borgin væri í vexti á erfiðum tímum. Atvinnuleysi jókst verulega síðustu tvö ár en frá í febrúar hefur það minnkað og er nú 5,8%. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, er hissa á að Borgarlínu sé ekki getið í fjárhagsáætluninni.

Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, hafi í ræðu sinni sagt að skólamál verði í miklum forgangi hjá borginni á næsta ári og að á næstu 5-7 árum verði 25 til 30 milljörðum varið í skólamál.

Gert er ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu A-hluta en það má rekja til efnahagskreppunnar og magnaukninga, aðallega í velferðarþjónustu, vegna aukinna skuldbindinga af hálfu ríkisins sem lagðar eru á sveitarfélögin án þess að tekjustofnar þeirra séu styrktir.

Frá og með næsta ári er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan fari batnandi, meðal annars vegna aðgerðaáætlunar til næstu fimm ára en hún á að hafa jákvæð áhrif á tekjur og útgjöld.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir í tilkynningunni að borgin muni vaxa út úr þeim vanda sem COVID-19 skilur eftir sig. Niðurstöðurnar séu í samræmi við Græna planið sem var lagt fram í fyrra en það er sýn borgarinnar til lengri og skemmri tíma. „Borgin er að sækja fram og næsti áratugur verður áratugur Reykjavíkur,“ segir Dagur í tilkynningunni.

Þegar Fréttablaðið leitaði viðbragða hjá Eyþóri Arnalds um tilkynninguna sagði hann að það fyrsta sem hafi vakið athygli hans sé að skuldasöfnun borgarinnar haldi áfram því borgin sé ósjálfbær. „Við höfum talað fyrir því að hagræða rekstri, hætta fyrirtækjarekstri og leggja áherslu á fjölgun íbúa. Það gæti komið til endurbóta á holræsakerfinu á þessum tíma án þess að það sé minnst á það. Svo vakti það athygli mína að það var ekkert framlag til Borgarlínunnar. Það er ekki að hægt sé að setja það á laggirnar án þess að gera ráð fyrir fjármagni,“ sagði hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt