fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fókus

Tilræði við trypófóba er víða að finna í íslensku samfélagi – Mjólkurkaffi og jarðaber vekja upp velgju og viðbjóð

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 6. nóvember 2021 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjá litlum hópi fólks varð uppi fótur og fit á samfélagsmiðlum í vikunni þegar borgarfulltrúinn Heiða Björg Hilmarsdóttir birti mynd af plöntu í sinni eigu sem var alsett fræjum sem líktust einskonar götum. Með myndinni birtist ósköp sakleysisleg spurning en í augum þeirra sem þjást af fælninni trypophobia var um einskonar tilræði að ræða svo notuð séu orð blaðamannsins Jóhanns Óla Eiðssonar.

Trypophobia er fælni sem byggist á því að viðkomandi þjáist af ótta, eða upplifi viðbjóðstilfinningu við að sjá göt eða áferðir með gatamynstri. Sérfræðingar eru ekki á einu máli um hvort að flokka beri trypophobiu sem raunverulega fælni. Þannig voru niðurstöður rannsóknar frá árinu 2013 sem benti til þess að fælnin sé einskonar framlenging á líffræðilegum ótta fólks við hættulega hluti í náttúrunni. Önnur rannsókn frá 2017 var ekki á sama máli og niðurstaða hennar var á þá leið að um sérstaka fælni væri að ræða. Endanlegur úrskurður hefur þó ekki verið kveðinn upp.

Fær æluna upp í háls

Jóhann Óli, sem starfar sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu, segir að hann upplifi einskonar kvíðaviðbrögð þegar hann sér slíka áferð eða munstur.„Ég fæ hroll og ógeðistilfinningu og verður yfirleitt flökurt,“ segir Jóhann Óli. Hann hætti að fá sér mjólk í kaffi útaf loftbólum sem myndast iðulega í vökvanum ljúffenga og nærmynd af jarðaberjum er afar ógeðfelld tilhugsun í hans huga. Verst af öllu eru sólblóm sem eru allt að því satanískar plöntur að mati blaðamannsins. „Ég hef meira að segja séð svona rörastæðu í fjarska, en nógu nálægt til að mynstrið myndist, og þá fer kerfið af stað.“

Sólblóm eru plöntur Satans að mati margra trypófóba

Aðspurður um verstu upplifanir sínar af trypophobiu koma ákveðin góðgerðarsamtök strax upp í hugann. „Eitt árið var bleika slaufan alsett götum. Það eyðilagði allan októbermánuð það árið.“

Þessi hönnun á bleiku slaufunni eyðilagði eitt sinn heilan mánuð fyrir Jóhanni Óli og Svanhildi Hólm

Henti útskriftargjöfinni

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, hugsar einnig með hryllingi til bleiku slaufunnar þetta ár. Vinskapur hennar og Jóhanns Óla hófst einmitt útaf því tilræði. „Ég þoli ekki  skreytingar með götum,“ segir Svanhildur kímin. Hún segir að fyrir nokkrum árum hafi það verið í tísku að hafa einhverskonar þurrkaða ávexti með götum í blómaskreytingum og það hafi verið að gera hana brjálaða.

„Eitt það ógeðslegasta sem ég hef séð var dýralífsmynd af froskum sem geymdu egg sín á bakinu og þegar þau klökktust út voru holur eftir á bakinu,“ segir Svanhildur og á ekki einu sinni lýsingarorð fyrir þann viðbjóð.

Froskur með egg á bakinu

Hún segir að slík munstur eða áferð veki upp mismikinn viðbjóð hjá sér en hún reyni eftir fremsta megni að hugsa ekki um slíkt og því er þetta stutta viðtal henni talsverð þraut.

Sumir hennar nánustu eru meðvitaðir um þessa fóbíu og þannig tók vinahópur hennar sig til um árið og gaf henni stórt útprent af NOVA-auglýsingu með fjölmörgum augum í útskriftargjöf. Hún féll ekki í kramið hjá Svanhildi. „Ég henti þeirri mynd.“

Lotusplanta djöfulsins

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, glímir einnig við trypophobiu og man vel eftir hryllingi við matarborðið á æskuheimili sínu. „Í barnæsku var alltaf gufusoðið spergilkál með kvöldmatnum, hvert einasta kvöld, alla daga vikunnar. Móðir mín var langt á undan sinni samtíð hvað heilbrigði matarræði varðar. Þegar stilkurinn var skorinn til helminga birtist oft þessar holur. Algjör hryllingur.“

Að sögn Hildar fær hún gæsahúð og hárin rísa á höfði hennar þegar hún sér slíkt munstur eða áferð. „Besta leiðin til að lýsa þessu er einfaldlega hryllingur,“ segir borgarfulltrúinn.

Þegar hún er beðin um að telja upp hluti sem eru sérstaklega ógeðfelldir þá nefnir hún meðal annars mjólkurkaffi, eins og Jóhann Óli, og þá er hún sérstaklega á móti nýrri tísku hjá blómabúðum. „Þær eru nýverið farnar að selja svokallaða lotusplöntu, ekki blómið heldur græn planta. Það er einhverskonar tilræði gagnvart öllum trypophobum landsins. Algjör skelfing.“

Hún segist þekkja marga aðila sem að þjást af sömu fælni en alvarleikastigið er misjafnt. „Ég þekki einstaklinga sem geta ekki hugsað sér að kaupa nýja iPhone-símann því að myndavélin aftan á honum skapar þessi viðbrögð,“ segir Hildur og hlær.

Hún tekur síðan fram að hún muni líklega ekki lesa þessa umfjöllun ef blaðamaður hyggst myndskreyta hana. Hér með biðst undirritaður velvirðingar á því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Gísla Martein hafa gert ósmekklegt grín að konunni sem steig fram í síðustu viku

Segir Gísla Martein hafa gert ósmekklegt grín að konunni sem steig fram í síðustu viku
Fókus
Fyrir 2 dögum

Móðir hundskammaði son sinn og dró hann úr röðinni fyrir kynlífsmaraþon Bonnie Blue

Móðir hundskammaði son sinn og dró hann úr röðinni fyrir kynlífsmaraþon Bonnie Blue
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ótrúleg breyting á leikaranum: „Ég er á hápunktinum núna“ – Svona lítur hann út í dag

Ótrúleg breyting á leikaranum: „Ég er á hápunktinum núna“ – Svona lítur hann út í dag
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svona kúkar maður á Suðurskautslandinu

Svona kúkar maður á Suðurskautslandinu