Málefni Eflingar hafa verið áberandi í umræðunni síðustu tvo daga, en Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður félagsins, sagði af sér á sunnudag í kjölfar þess að starfsmenn neituðu að draga til baka alvarlegar athugasemdir þeirra um líðan starfsmanna sem lagðar voru fram í ályktun sem send var stjórnendum í júní.
Nú hafa trúnaðarmenn Eflingar sent frá sér yfirlýsingu fyrir hönd starfsmanna þar sem tekið er fram að það hafi aldrei verið ætlun starfsmanna að koma Sólveigu Önnu út. Aðeins hafi verið óskað eftir að vandamál starfsmanna yrðu viðurkennd og leyst í samvinnu við yfirmenn.
Yfirlýsingin er hér að neðan.
„Í ljósi fréttaflutnings síðustu daga viljum við koma eftirfarandi á framfæri:
Það var ekki vilji eða meining starfsmannafundarins á föstudag að formaður félagsins segði af sér. Starfsfólk félagsins hefur unnið af heilum hug samkvæmt þeirri stefnu sem forysta félagsins hefur sett síðustu ár. Fjöldi starfsmanna félagsins starfar hér vegna þeirrar baráttu sem Sólveig hefur háð. Þau vandamál sem starfsfólk ræddi, vildi starfsfólk leysa í samvinnu við yfirmenn.
Yfirlýsingin á föstudag var ekki sett fram í þeim tilgangi að lýsa vantrausti eða hrekja nokkurn úr starfi. Hún var hugsuð sem fyrsta skref á leið til lausnar.
Starfsfólk er, sem endranær, að vinna fyrir félagsmenn með þeirra hag fyrir brjósti.“