fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Sjáðu launabónusa heilbrigðisforstjóranna í faraldrinum – Alma, Rúna, Óskar og Gylfi á sérstöku álagi vegna Covid

Heimir Hannesson
Laugardaginn 6. nóvember 2021 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landlæknir, forstjóri Lyfjastofnunar, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða fengu öll Covid-tengda launabónusa í fyrra, samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins.

Bónusarnir eru allir ákvarðaðir á grundvelli reglugerðar fjármálaráðherra um greiðslur viðbótarlauna forstöðumanna. Skal fjármálaráðherra samkvæmt reglugerðinni ákvarða forsendur viðbótarlauna sem greidd eru og skal sú viðbót vera „vegna sérstaks álags eða verkefna sem eru verulega umfram reglubundnar starfsskyldur.“

„Heimild til greiðslu viðbótarlauna er bundin við sérstakt álag, t.d. vegna óvæntra eða ófyrirséðra ytri atvika, eða verkefna sem eru verulega umfram reglubundnar starfsskyldur og rúmast ekki innan venjubundinnar starfsemi stofnunar,“ segir jafnframt í reglugerðinni.

Tekið skal fram að reglugerðin beinist aðeins að forstjórum ríkisstofnana. Þeir forstjórar ákvarða svo kaup og kjör, og hugsanlega álagsgreiðslur til undirmanna sinna. Þá er fyrir greiðslunum sett það skilyrði að þær rúmist innan fyrirliggjandi fjárheimilda stofnanna sem viðkomandi forstjórar stýra.

Eins og við var að búast var álagið mikið  á fjórmenningunum í faraldrinum og gæti jafnvel einhverjum þótt bónusarnir sem í boði voru heldur fátæklegir.

Alma fékk 15%

Alma Möller landlæknir sóttist þann 15. maí eftir álagi á laun sín vegna aukins álags í Covid faraldrinum. „Í þessum aðstæðum hefur landlæknir þurft að taka að sér leiðtogahlutverk og upplýsingamiðlun langt umfram reglubundnar starfsskyldur. Með vísan til þess er veitt heimild til greiðslu 15% álags á mánaðarlaun landlæknis frá 15. febrúar til 15. desember,“ segir í ákvörðun heilbrigðisráðherra sem DV hefur undir höndum.

Óumdeilt er að mikið álag var á embætti landlæknis á þessum tíma. Fyrsta Covid smitið kom upp í lok mánaðarins og fór fyrsta bylgjan svokallaða af stað með miklum látum skömmu síðar. Ekki er að sjá að landlæknir hafi óskað eftir frekari viðbót við launagreiðslur sínar á árinu 2021.

210 þús kall í álag vegna hópsmits fyrir vestan

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, óskaði eftir og fékk einskiptisálagsgreiðslu fyrir apríl mánuð 2020 að fjárhæð 210.600 krónur, sem samsvarar 15% álagi á heildarlaun hans.

Fyrir ósk sinni færði hann þau rök að álag vegna faraldursins hefði verið mikið frá mánaðarmótunum mars/apríl þegar fjöldi Covid smita kom upp á Vestfjörðum. Stórt hópsmit kom upp 2. apríl í fyrra en fór fækkandi eftir 20. þess mánaðar. Er það þá jafnframt rakið í ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að meirihluti heilbrigðisstarfsmanna fyrir vestan hafi í apríl verið settur í sóttkví og þurft að kalla út heilbrigðisstarfsmenn úr svokallaðri bakvarðasveit til starfa. „Með hliðsjón af því voru meiri kröfur gerðar til forstjórans en grunnmat starfsins gefur til kynna og er þá einkum horft til þátta er snúa að samskiptum og stjórnun. Með vísan til þess fellst ráðuneytið á álag á forstjóra stofnunarinnar var ófyrirséð og verkefni hans var verulega umfram reglubundnar starfsskyldur í apríl mánuði,“ segir í ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins frá 16. júlí 2020.

Óskar undir mesta álaginu

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fékk lengst allra álagsgreiðslur greiddar, en af gögnum sem DV hefur undir höndum má ráða að Óskar hafi fengið mestar álagsgreiðslur, en hann fékk 10% álag ákvarðað samtals þrisvar sinnum, og var því á 10% bónus óslitið frá 15. febrúar 2020 til 1. september 2021, eða í samtals 18 og hálfan mánuð.

Í beiðni Óskars um álag kom fram að hann hafi verið undir meiri álagi en venjulega síðan faraldurinn hófst. „Forstjórinn hafi þurft að sinna endurtekinni kvöldvinnu og ekki haft tök á að taka orlof. Þá hafi mikill tími farið í að veita viðtöl, taka þátt í fréttamannafundum og öðrum samráðsfundum á vegum stjórnvalda,“ segir jafnframt í ákvörðun ráðuneytisins. Ráðuneytið féllst á að álag hafi verið umfram það sem endurspeglast í grunnmati starfs hans og var honum því veitt, sem fyrr segir 10% álag fyrir tímabilið 15. febrúar til 15. desember 2020.

Samskonar rök eru færð fyrir launaálagi Óskars í næstu ákvörðun, sem gilti frá 16. desember til 1. júní.

Fyrir þriðju ákvörðun um 10% álag ofan á laun Óskars bætist svo álag vegna bólusetninga í röksemdarfærsluna. „Í beiðnni kemur fram að um sé að ræða að umfangsmikla verkefni að skipuleggja bólusetningar gegn Covid sem mun ekki rúmast innan hefðbundinnar vinnu forstjóra,“ segir í ákvörðuninni.

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu annast framkvæmd bólusetningar á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Rúna fékk 5%

Rúna Hauksdóttir Hvannberg fékk fjórum sinnum álagsgreiðslu vegna faraldursins. Fyrst í júlí 2020 fyrir tímabilið mars og apríl árið 2020. Segir í ákvörðun heilbrigðisráðherra að neyðaráætlun Lyfjastofnunar hafi verið virkjuð í lok febrúar og að daglegir fundir hafi farið fram í nefndinni. Þá hafi forstjóri fundað nær daglega með almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra auk þess sem mikið hafi mætt á Lyfjastofnun að tryggja landsmönnum nauðsynleg lyf. Þótti ráðuneytinu hæfilegt að veita forstjóranum 5% launabónus, eða samtals 140.400 krónu eingreiðslu.

Aftur fékk Rúna 5% bónus fyrir álag fyrir mánuðina maí, ágúst, september og október árið 2020 í janúar 2021 og þá fyrir aukins álags vegna þess að forstjóri þurfti að „taka að sér leiðtogahlutverk og upplýsingamiðlun umfram venjubundnar starfsskyldur.“

Sömu sögu var svo að segja af nóvember og desember ársins 2020, og janúar 2021. Loks féllst heilbrigðisráðuneytið á 5% álag fyrir mánuðina mars, apríl, maí, júní og ágúst á þessu ári. Ekki er að sjá að óskað hafi verið eftir frekari greiðslum.

Eitt af meginverkefnum Lyfjastofnunar er jafnframt að tryggja öryggi lyfja sem veitt eru leyfi fyrir hér á landi. Þar á meðal bóluefna. Fellst í því verkefni að taka á móti og afgreiða tilkynningar um mögulegar aukaverkanir bóluefna við Covid-19.

Á heimasíðu Lyfjastofnunar er að finna upplýsingar um fjölda tilkynninga vegna bólusetninga gegn Covid-19. Eru þær, þegar þetta er skrifað, 5.501 talsins, þar af 226 alvarlegar.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“