Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason hefur greinst með COVID-19 og dvelur nú í sóttvarnarhótelinu við Rauðarárstíg. Þar sem Hallgrímur var einn gesta Vikunnar með Gísla Marteini Baldurssyni á föstudag eru nú bæði Gísli Marteinn sem og aðrir gestir þáttarins komnir í sóttkví.
Hallgrímur skrifar um þetta á Facebook.
„Jæja það fór ekki svo að Kóvíð konungur næði manni ekki inn í ríki sitt. Ég er semsagt einn af þessum 72 sem smituðust í gær. Er vel flensaður og slappur en þó enn með bragð- og lyktarskyn. Enda tvívarinn með Astra Zeneca síðan í sumar. Guð blessi bóluefnin!“
Hallgrímur greinir frá því að hann hafi í gær verið fluttur á sóttvarnarhótelið á Rauðarárstíg og þar sé gott að vera.
„Var í gærkveldi ekið hingað af slökkviliðsmanni á sóttvarnarhótelið við Rauðarárstíg. Hér er yndislegt að vera með útsýn yfir æskustöðvarnar og nafna á holtinu. Tímasetningin gat allavega ekki verið betri. Sýning komin upp og allar bækur í búðir.“
Sem betur fer hafi aðrir fjölskyldumeðlimir ekki greinst jákvæðir og segist Hallgrímur vona að hann hafi ekki smitað neinn í Vikunni. En nú séu Gísli Marteinn, Sóli Hólm og Katrín Halldóra Sigurðardóttir komin í sóttkví. Þau séu sem betur fer einkennalaus.
„Aðrir sem ég hitti á föstudaginn eru í smitgát. Allir neikvæðir að ég best veit. ATH: Þið sem komuð í útgáfuteitið á fimmtudag þurfið ekki að bregðast við. Rakningateymið dregur línuna við föstudagsmorgun. En við ykkur sem enn eigið eftir að láta bólusetja ykkur segi ég: Gerið það strax!“
Gísli Marteinn staðfestir að hann sé kominn í sóttkví á Twitter.
Þið eruð kannski búin að sjá það í fréttum en í ljós kom í gær að @HalgrimHelgason er með covid og við @SoliHolm og Katrín Halldóra erum komin í sóttkví af því við vorum í #vikan á fös. Erum öll stálslegin nema HH sem er slappur. Losnum á miðvikudag ef covid test er neikvætt.
— Gísli Marteinn (@gislimarteinn) November 1, 2021
Sóli Hólm hefur einnig tjáð sig um málið á Twitter þar sem hann segir að kona hans, Viktoría Hermannsdóttir, hafi ákveðið að nýta vinnuafl hans til fulls á meðan hann dvelur í sóttkví.
Og það sem àtti að verða næs frí frá skyldum fyrir mig niðri í kjallara hefur @Viktoriaherm gert að vinnubúðum😒 Þvottafjallið skal hverfa og geymslan verða eins og tannlæknastofa. Þetta er annars mín fyrsta sóttkví! https://t.co/0zvyW4c8i0
— Sóli Hólm (@SoliHolm) November 1, 2021