Kvikmyndin Leynilögga er í fjórða sæti, en ekki því fyrsta, þegar kemur að tekjuhæstu opnunarhelgum íslenskra kvikmynda. Klapptré greinir frá þessu. Baltasar Kormákur segir við DV: „Rétt skal vera rétt,“ en hann leikstýrði Mýrinni sem vermir efsta sætið.
Á mánudag sendi almannatengillinn Jón Gunnar Geirdal út fréttatilkynningu þar sem sagði að kvikmyndin Leynilögga hafi slegið fimmtán ára frumsýningarmet Mýrinnar þegar kemur að tekjum og birtu það allir helstu miðlar landsins.
Jón Gunnar sagði að tekjur af miðasölu á frumsýningu á Leynilöggu hafi verið tæpar 15.941.412 kr. en tekjur af frumsýningarsölu Mýrinnar hafi verið 15.807.800 kr.
Rangt með farið
Á vefsíðunni Klapptré, þar sem fjallað er um íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsefni, segir að þetta sé ekki alls kostar rétt og er farið yfir málið í grein sem ber yfirskriftina „Smá um opnunarhelgar og tekjumet.“
Klapptré segist hafa fengið fréttatilkynninguna um tekjumet Leynilöggunnar en þær fullyrðingar sem þar hafi verið settar fram séu ansi hæpnar. „Sé horft á tölurnar sem slíkar eru þær réttar. Gallinn er hinsvegar sá að tekjur myndanna sem Leynilögga er borin saman við, eru ekki núvirtar og að auki bornar saman tekjur opnunarhelgar við tekjur opnunarhelgar ásamt forsýningum.
Í verðbólgulandinu Íslandi er samanburður án núvirðingar auðvitað mjög villandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Núvirtar 15,8 milljóna króna frumsýningarhelgartekjur Mýrinnar frá 2006 eru um helmingi hærri upphæð í dag.,“ segir í greininni.
Leynilögga í fjórða sæti
Niðurstaðan sé því sú að opnunarhelgi Mýrinnar er enn sú langstærsta í bæði tekjum og aðsókn talið. Leynilöggan og aðstandendur hennar megi sannarlega vel við una.
Samkvæmt útreikningum Klapptrés er Leynilögga í fjórða sæti þegar kemur að tekjuhæstu opnunarhelginni en Mýrin í efsta sæti með yfir 30 milljónir að núvirði. Þar á eftir kemur Bjarnfreðarson og síðan myndin Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum.
Annarlega framsetning
Baltasar Kormákur vekur einnig athygli á þessu. „Síðustu vikuna hefur verið haldið þeirri lygi á lofti að Leynilögga hafi slegið miðasölumet Mýrarinnar. Sannleikurinn er að það er fjarri lagi. Mýrinn fékk um 14000 manns en Leynilöggan 8500 fyrstu helgina. Ef miðasölutekjurnar eru uppreiknaðar þá er Mýrin nánast með tvöfalt hærri tekjur. Ástæðan fyrir þessum miskilningi er mjög annarleg framsetning. Hún er gerð með að leggja saman tölur frá 2006 og 2021 og reikna ekki núvirði og/eða telja ekki hausa. Þetta hefur aldrei tíðkast þar sem verðbólga er há hér á landi. Þannig að samkvæmt þessu er það verðbólgan sem er sigurvegari. Ef menn vilja hinsvegar bera saman hluti er best að bera saman epli og epli,“ segir hann.
Baltasar segist þó sannarlega samgleðjast Hannesi Þór, leikstjóra Leynilöggu, og öðrum aðstandendum myndarinnar: „Árangur Leynilöggu er flottur og óska ég þeim alls hins besta en rétt skal vera rétt. Það má vera að Hannes hafi varið frá Messi en þessum bolta náði hann ekki.“