Nýja Vínbúðin býður nú upp á fjölbreytt úrval af jólabjór í netverslun sinni. Að sögn fyrirtækisins er enn tæp vika í að hægt verði að versla jólabjór í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og því býður Nýja Vínbúðin unnendum jólabjórs að taka forskot á sæluna.
Þá hefur Nýja Vinbúðin einnig bætt við þjónustu sína og býður nú upp á hraðsendingar. Vörur berast
þannig innan tveggja klukkutíma til þeirra sem panta frá kl. 12-20 á virkum dögum og á milli kl. 12-18 um helgar. Slíkt fyrirkomulag í áfengisverslun er nýjung á Íslandi en hefur nú verið nýtt bæði af fyrirtækjum og einstaklingum.
Nýja Vínbúðin er bresk vefverslun með höfuðstöðvar í Englandi en vöruhús verslunarinnar er innan
evrópska efnahagssvæðisins. Í samræmi við lög eru vörur Nýju Vínbúðarinnar eingöngu afhentar þeim
sem náð hafa aldri til að kaupa áfengi.
Sverrir Einar Eiríksson, eigandi og framkvæmdastjóri Nýju Vínbúðarinnar, segir:
„Fólk bíður með eftirvæntingu eftir jólabjórnum á hverju ári. Hægt er að nálgast jólabjór víða
erlendis og því teljum við ótækt að íslenskir neytendur þurfi að bíða eftir því hvenær Áfengis- og
tóbaksverslun ríkisins heimili fólki að versla hann. Viðbrögðin síðustu daga hafa verið mikil og ljóst
að bæði fyrirtæki og einstaklingar kunna að meta nútímalega og bætta þjónustu.“