Teitur Atlason, sérfræðingur á öryggissviði hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), bendir á að nokkuð er um að beinlínis hættulegir hrekkjavökubúningar séu í umferð hér, t.d. búningar með eldfimu efni. Segir Teitur mikilvægt að foreldrar hugi að merkingum á hrekkjavökubúningum handa börnum sínum.
„Dæmi eru um búninga sem eru eldfimir, þá eru dæmi um búninga þar sem smáhlutir geta losnað af búningunum og hrokkið ofan í unga krakka. Einnig eru dæmi um grímur úr eitruðu plasti,“ segir Teitur, en segir þó að langflestir búningar á markaðnum hér séu vottaður og með réttum merkingum. Dæmi séu þó um búninga sem þurfi að innkalla úr sölu.
„Foreldrar ættu að hafa í huga að beita gamla hyggjuvitinu, maður kaupir ekki hvaða leikfang sem er handa barninu sínu og rétt er að athuga hvort varan er öryggisvotttuð og huga að innihaldsmerkingum,“ segir Teitur og telur það ekki síst við hæfi þegar um er að ræða mjög ódýrar vörur úr plasti.
HMS hefur birt gagnlega fréttatilkynningu um málið á vefsíðu sínni með tenglum inn í tilkynningar um hrekkjavökubúninga sem hafa verið innkallaðir í Evrópu. Í tilkynningunni segir:
„Hrekkjavaka verður sífellt vinsælli á Íslandi en þá klæða börn og fullorðnir sig upp í allskonar búninga og hræða líftóruna hvert úr öðru. Þessir búningar fást víða og eru margir hverjir afar óhuggulegir.
Áður en búningur er keyptur fyrir börn ættu foreldar að hafa í huga að búningar geta verið þeim hættulegir, þeir geta verið eldfimir og innihaldið eiturefni auk þess sem á þeim geta verið smáhlutir sem geta valdið hættu á köfnun hjá litlum börnum. Sumir búningar eru með löngum böndum sem geta valdið kyrkingarhættu. Búningar sem ætlaðir eru börnum verða að vera CE merktir. Merkið gefur til kynna að varan sé örugg fyrir börn.
Nokkur fjöldi tilkynninga um hættulega búninga berast á hverju ári í gegnum evrópskt tilkynningakerfi, „Safety Gate“. Vörur sem eru hættulegar ber að innkalla á Evrópska efnahagssvæðinu.“