Þröstur Sigmundsson, fyrrverandi hrefnuveiðimaður frá Reykjanesbæ, var þann 27. október, sakfelldur fyrir árás á lögregluþjón. Atvikið átti sér stað við Reykjanesbraut sumarið 2020. Þresti var ekki gerð refsing í málinu og á sér nokkrar málsbætur. Hann var hins vegar dæmdur til að greiða málskostnað.
Þröstur var stöðvaður á Reykjanesbraut, skammt frá afleggjaranum að Vogum. Hann var á bíl með kerru aftan í, í kerrunni var fjórhjól, en annað hjól kerrunnar var á felgunni og þess vegna var hann stöðvaður.
Þröstur var mjög ósamvinnuþýður við lögreglumann á vettvangi en í lýsingu á málavöxtum í dómnum segir:
„Ákærði hafi þá ýtt lögreglumanninum í átt að akbrautinni sem hafi þá þrýst ákærða upp að bifreiðinni en ákærði hafi þá gripið um hægri hönd og vinstri síðu
lögreglumannsins. Lögreglumaðurinn hafi losað sig undan taki ákærða sem hafi þá reynt að grípa um hægri síðu lögreglumannsins og haldið áfram að ýta honum í átt að akbrautinni. Lögreglumennirnir hafi þá ætlað að færa ákærða í lögreglutök en hann þá farið að streitast á móti en þá hafi lögreglumönnunum borist liðsauki og mikil átök orðið við að færa ákærða í lögreglutök. Í átökunum hafi ákærði tekið höfuð og háls lögreglumanns í höfuðlás. Ákærði hafi ekki orðið við tilmælum um að leggjast í jörðina, haldið fast í bifreið sína og haldið áfram að veita mótspyrnu. Hafi endað með því að lögreglumaður hafi notað varnarúða á ákærða en hann hafi ekki orðið við tilmælum umað setja hendur sínar aftur fyrir bak. En að lokum hafi tekist að yfirbuga ákærða og hann verið færður í handjárn og síðan fluttur á lögreglustöð.“
Þröstur sagðist hafa verið illa fyrirkallaður þennan dag. Hann hafi umfram allt viljað forðast handtöku á vettvangi þar sem hann væri öryrki en Þröstur glímir við afleiðingar slysa. Hann viðurkenndi að hann hefði ekki sýnt af sér góða háttsemi við lögreglumennina en hafnaði ásökunum um að hann hefði ráðist á lögreglumann.
„Ákærði neitar sök en viðurkennir þó að þetta hafi ekki verið hans besti dagur. Báðir lögreglumennirnir, sem fyrst höfðu afskipti af ákærða, hafa lýst því að ákærði hafi tekið lögreglumann A í svokallaðan hauslás og þrengt að þannig að lögreglumaðurinn hafi ekki komist frá ákærða,“ segir í texta dómsins.
Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að lögreglumönnum hefði mátt vera ljóst að ekki stafaði hætta af Þresti. Mjög erfiðlega gekk að koma honum í lögreglutök þar sem hann streittist mikið á móti og þurfti að kalla til liðsauka.
Í niðurstöðukafla dómsins segir:
„Ákærði hefur unnið sér til refsingar skv. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en hann hefur ekki áður sætt refsingu. Á upptöku úr búkmyndavél
lögreglumanns heyrist að ákærði, sem var ekki undir áfengisáhrifum, biður lögreglumennina ítrekað að vera rólega eins og hann sé að biðjast vægðar eftir að
lögreglumennirnir ætla að færa hann í lögreglutök. Verður því að telja að í raun hafi ekki stafað mikil hætta af ákærða og hann hafi fljótlega séð að sér varðandi framkomu sína gagnvart lögreglumönnunum. Með vísan til þessa þykir mega ákveða að fresta skuli ákvörðun um refsingu ákærða skilorðsbundið þannig að hún falli niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“
Ákærða er því ekki gerð refsing en hann þarf að greiða um milljón í málskostnað.