Fundi Umhverfisráðherra og Skotvís, Skotveiðifélags Íslands, lauk nú síðdegis og herma heimildir DV að hann hafi verið árangurslaus.
Mun fundurinn að mestu hafa farið í skoðanaskipti milli viðstaddra, en enginn samhljómur náðst. Að óbreyttu, og samkvæmt gildandi lögum og reglum, hefst rjúpnaveiðin 1. nóvember, eða næsta mánudag.
Sagði DV frá því í gær að mikill titringur væri meðal skotveiðimanna sem hefðu margir þegar gert ráðstafanir vegna komandi tímabils, bókað hótel, keypt búnað, tekið sér frídaga úr vinnu og fleira. Ræddi DV þá við einn sem sagðist varla trúa því að ráðherra legði í að banna rjúpnaveiði aðeins örfáum dögum fyrir veiðitímann.
Ekki varð það svo til þess að slá á áhyggjur veiðimanna þegar ráðuneytið á þriðjudaginn boðaði fulltrúa Skotvís á áðurnefndan fund til sín. Þá sagði umhverfisráðherra í fréttum í morgun að gert væri ráð fyrir að 32 þúsund rjúpur myndu veiðast á komandi tímabili, en veiðiþol stofnsins aðeins 20 þúsund. Stoppa þyrfti því upp í 12 þúsund rjúpna gat.
Veiðimenn höfðu áður verið beðnir um að hafa viðkvæma stöðu stofnsins í huga og að takmarka veiði sína við fjórar rjúpur á mann.
Samkvæmt heimildum DV ríkir nú bæði óvissa og ótti um það sem koma skal, en aðeins einn virkur dagur er eftir, morgundagurinn, þar til veiðin hefst. Lýsa þær sömu heimildir gremju út í vinnubrögð ráðuneytisins og segja aðilar sem komið hafa að málinu að alltof seint sé að grípa til aðgerða nú. Tölfræði Náttúrufræðistofnunar og ráðleggingar Umhverfisstofnunar hafi legið fyrir í margar vikur.