Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, spáir bjartari tímum í baráttunni við Covid-19 á næsta ári. Þetta kemur fram á vef Hringbrautar en viðtal við Kára verður birt á Fréttavakt Hringbrautar sem er á dagskrá í kvöld kl. 18:30.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lýst yfir þungum áhyggjum af þróun faraldursins undanfarið en mikil fjölgun smita hefur orðið í kjölfar nýjustu afléttinga á samkomutakmörkunum. Hefur Þórólfur sagt að svo kunni að fara að herða þurfi aðgerðir og jafnvel gætu harðar takmarkanir haft áhrif á jólahald.
Kári segir meðal annars í viðtalinu:
„Við lifum í miklu meira návígi hvort við annað og ferðumst miklu meira. Það má vel vera að þegar svona faraldur kemur upp á yfirborðið breiðist hann út miklu hraðar en áður en mér finnst þetta svolítill þunglyndistónn í þessu hjá Þórólfi, þessum ágæta manni og duglega sóttvarnaherforingja okkar. Við ættum ekki að sökkva okkur ofan í djúpar áhyggjur að þessi veira verði hér í mörg ár eða áratugi eða að það komi aðrar veirur af sama toga en við eigum hins vegar að fylgjast grannt með því sem er að gerast út í heimi.“
Kári segir að ný bóluefni verði þróuð til að draga verulega út smitum. Einnig reiknar hann með að lyf gegn Covid-19 komi á markaðinn á næsta ári.
Ennfremur segir Kári að hann vilji að sérstök farsóttarstofnun verði til á Íslandi:
„Við þurfum að byggja upp farsóttarstofnun sem fylgist með því sem er að gerast út í heimi, greinir gögn og getur kallað saman hóp stofnana, fyrirtækja og einstaklinga til að bregðast við.“