Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, gerir hópnauðganir að umtalsefni í leiðara blaðsins í dag. Fréttablaðið greindi frá því í gær að það sem af er ári hafa nítján einstaklingar leitað til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis vegna hópnauðgunar þar sem tveir eða fleiri hafa verið að verki. Þetta eru mun fleiri tilvik en á síðasta ári og miklu fleiri en árið þar á undan
„Ómögulegt er að setja sig í spor ungra stúlkna sem verða fyrir hópnauðgun, þótt hægt sé að gera sér í hugarlund þann óbærilega hrylling sem marka mun heilsu fórnarlambsins um aldur og ævi. Mögulegt er aftur á móti að taka þessa glæpi jafn alvarlega og þeir eiga skilið,“ segir Sigmundur.
Þá vekur hann athygli á því hversu mikil afgangsstærð kynferðisbrot eru í íslensku réttarkerfi.
„Það hníga til þess rök að Íslendingar lifi í samfélagi þar sem meiri áhersla er lögð á eftirgrennslan með skattsvikum en rannsóknir á kynferðisbrotamálum. Fyrri málaflokkurinn virðist vera tekinn fastari tökum en sá síðari, enda fer hann mun hraðar í gegnum réttarkerfið, jafnvel á örfáum mánuðum, á meðan þolendur kynferðisofbeldis – í yfirgnæfandi tilvikum konur – geta átt von á því að bíða árum saman eftir að dómur falli,“ segir hann.
Sigmundur segir eftir öðru að margir gerendur sem dæmdir eru fyrir þessa svívirðilegu glæpi fá að lokum afslátt af refsivistinni vegna þess hve langur tími leið frá dómsuppkvaðningu. „Og það óréttlæti upplifa margir þolendur sem aðra nauðgun, af hálfu ríkisins,“ segir hann.
Leiðarinn ber yfirskriftina Þjóðarmein og er vísun í orð Sigmundar þar sem hann segir: „Kynferðisofbeldi er þjóðarmein á Íslandi. Birtingarmyndir þess eru margvíslegar, allt frá endurtekinni áreitni til alvarlegustu sálarmorða. Og ekkert lát er á þessari svívirðu.“