DV sagði frá málinu í júní í fyrra og ræddi við áhyggjufulla foreldra í hverfinu. „Ég er til í að gera hvað sem er til að þetta hætti og þess vegna er ég að ræða við fjölmiðla,“ sagði einn faðir í Rimahverfinu. Kom þar jafnframt fram að erfitt væri að fæla manninn úr hverfinu þar sem hann ætti íbúðina sjálfur. Lýstu þá jafnframt aðrir foreldrar sem DV ræddu við áhyggjum yfir því að hann færi eitthvað annað. „Draumurinn væri auðvitað að losna við hann úr hverfinu, en þá hugsar maður á móti – hvert fer hann næst? Hann er ekkert endilega betur settur í einhverjum öðrum hverfum,“ sagði annar faðir sem DV ræddi við. „Í fullkomnum heimi ætti bara að loka þennan mann inni. Menn sem bera sig fyrir börnum, þetta eru bara ógeð,“ bætti hann svo síðar við.
Síðasta sumar tóku þá börn úr hverfinu sig til og límdu svarta ruslapoka fyrir gluggana í íbúðinni hans, en hann reif þá niður jafnóðum.
Þá hefur DV heimildir fyrir því að þau skilaboð hafi gengið á milli foreldra í hverfinu að ganga um með símana tilbúna til þess að ná myndbandi af athæfi mannsins, enda hafi lögreglan bent þeim á að best væri að hafa sannanir.
Það virðist hafa skilað sínu, því í dómnum er því lýst hvernig börnin tilkynntu manninn ítrekað til lögreglu. Þá er því lýst hvernig börnin í hverfinu vöruðu hvort annað við manninum. Gekk maðurinn meðal barna í hverfinu undir nafninu „perrinn í bláa húsinu.“
Teknar voru skýrslur af fjölmörgum börnum fyrir dómi og í Barnahúsi. Sum hver kváðust hafa séð til hans „klóra sér“ að neðan bak við gardínu í glugga íbúðarinnar. Önnur vissu betur hvað var á seyði. Í eitt þau skipta sem lögreglan var kölluð á staðinn kom maðurinn til dyra fáklæddur en sagðist þá hafa verið á stuttbuxum í glugganum að gera æfingar. Í annað skipti virðist lögreglumaðurinn hafa gómað hann í glugganum ber að neðan að fitla við lim sinn við stofugluggann. „Þegar ákærði sá lögreglumanninn hljóp hann með buxurnar á hælunum inn í íbúðina,“ segir í dómnum.
Ákærði játaði þá fyrir lögreglumönnunum að hafa staðið í glugganum og að hafa verið að fitla við lim sinn, en neitaði að hafa verið að horfa á börnin á meðan.
Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi var dómkvaddur geðlæknir sem framkvæmdi geðrannsókn á manninum. Segir í dómnum að geðskoðun hafi ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós. Maðurinn reyndist samvinnuþýður við skoðunina og sagðist ganga stundum nakinn um heima hjá sér, en neitaði því sem honum væri gefið að sök í dómsmálinu.
Ákærði neitaði jafnframt sök fyrir dómi. Sagðist hann ekki muna eftir fyrstu tveimur atvikunum sem hann var ákærður fyrir, en að hann væri stundum léttklæddur heima hjá sér og gerði reglulega heima hjá sér og væri jafnframt léttklæddur á meðan á þeim stæði. Þá kvaðst hann hafa verið illa sofinn í einhver skipti og ekki fundið nærbuxur og farið því nakin fram á baðherbergi íbúðarinnar og gengið fram hjá svaladyrunum á leið sinni þangað.
Í ljósi fjölda vitna auk vitnisburðar lögreglumanna í málinu þóttu flestar útskýringar mannsins á athæfi sínu ótrúverðugar. Aðrar voru hraktar með sönnunum.
Maðurinn hefur þrisvar áður verið dæmdur fyrir samskonar brot, síðast árið 2014. Í ljósi sakaferils mannsins og ítrekaðra brota þótti dóminum hæfilegt að ákvarða 12 mánaða fangelsi. „Með hliðsjón af fjölda tilvika og ítrekuðum brotum ákærða þykir ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna,“ sagði jafnframt í dómnum.
Þá var maðurinn dæmdur til þess að greiða lögmanni sínum um 2,2 milljónir og réttargæslumönnum brotaþola sinna annað eins. Þá fær hver brotaþoli mannsins 250 þúsund krónur í miskabætur, en þeir í málinu sjö talsins.