Með því að nota stærðfræðilíkön hafa vísindamenn komist að þeirri niðurstöðu að veiran hafi verið komin til margra Evrópuríkja og Bandaríkjanna í janúar 2020 og að þar til í mars 2020 hafi aðeins 1 til 3 prósent smittilfella uppgötvast. Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Nature.
Í henni skoðuðu vísindamennirnir flugumferð á milli Bandaríkjanna og Evrópu til að fá yfirsýn yfir hvernig veiran barst frá Wuhan í Kína til annarra ríkja.
Ítalskir vísindamenn telja að fyrstu smitin þar í landi hafi komið upp 6. janúar 2020 en fyrsta opinbera tilfellið var skráð 21. febrúar.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna einnig að mörg smit uppgötvuðust ekki. Í byrjun mars greindust aðeins 9 af hverjum 1.000 smitum í Bandaríkjunum. Í Evrópu var hlutfallið 35 af hverjum 1.000 smitum.
Í rannsókninni var einnig skoðað hvernig flugsamgöngum var háttað á milli Ítalíu og Kína á þessum tíma og kom í ljós að þær voru miklar enda samstarf ríkjanna mikið á mörgum sviðum. Það kemur því kannski ekki á óvart, svona eftir á að hyggja, að Ítalía hafi orðið illa úti í upphafi faraldursins.