„Ég hafði aldrei séð þetta box áður og þegar ég opnaði það hélt ég að þetta væri undarlegt safn af gömlum myntum. En ég veit ekkert um myntir og fannst því rétt að skoða þetta betur,“ sagði hann í samtali við BBC.
Það reyndist svo sannarlega vera hárrétt ákvörðun því í boxinu fannst meðal annars mynt sem er talin vera ein sú fyrsta sem var notuð í Bandaríkjunum en hún er talin vera frá 1652. Að auki voru fleiri gamlar myntir í boxinu.
Myntin frá 1652 verður seld á uppboði í Lundúnum í nóvember og er reiknað með að fyrir hana fáist 200.000 pund en það svarar til um 36 milljóna íslenskra króna.
Myntin er frá Nýja Englandi í Bandaríkjunum og trúði James Morton, myntsérfræðingur, varla eigin augum þegar hann fékk hana í hendur til skoðunar enda um toppeintak að ræða af einum skildingi.
Hann segir að myntin sé „stjarnan“ í safninu, sem var í boxinu, en í því voru einnig fleiri sjaldgæfar myntir, meðal annars nokkrar frá 1776.
Wentworth Beaumont er afkomandi William Wentworth sem fór í ferð til Nýja Englands 1636 og er því líklegt að hann hafi haft umrædda mynt með sér heim úr þeirri ferð.