Margir íbúar á Hornafirði hafa haft samband við DV í kjölfar birtingar greinar um kynferðisbrot konu sem var í áhrifastöðu hjá sveitarfélagi gagnvart annarri konu sem var einnig í stjórnunarstöðu hjá sveitarfélaginu. Mikil reiði virðist meðal þorpsbúa vegna málsins, umfram allt yfir því að gerandinn í málinu hafi hvorki verið sett í leyfi né sagt upp störfum í kjölfar atviksins þrátt fyrir vitneskju bæjarstjóra og bæjarstjórnar um það og að það hefði verið kært til lögreglu.
Íbúar benda, hver á eftir öðrum, á þá staðreynd að gerandinn í málinu er systir bæjarstjórans á Hornafirði. Gerandinn gegndi stöðu framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Hornafjarðar. Vegna skipulagsbreytinga færðist hún úr þessu starfi í mars á þessu ári og gegnir hún núna skrifstofustarfi fyrir Vigdísarholt, sem er ríkisstofnun er annast rekstur hjúkrunarheimilis á staðnum.
Því hefur ranglega verið haldið fram að ráðning konunnar í starfið hafi ekki verið lögmæt og virðist það vera skoðun margra bæjarbúa. Í frétt Mannlífs kemur hins vegar fram að staðan var auglýst, sjö sóttu um upphaflega en tveir hættu við og urðu umsækjendur á endanum fimm. Konan var valin úr þeim hópi en systir hennar, bæjarstjórinn, vék af fundi er ákvörðunin var tekin.
Í jafnréttisáætlun Hornafjarðar sem samþykkt var í bæjarstjórn sumarið 2020 og bæjarstjóri undirritaði segir í kafla um kynbundið ofbeldi:
„Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni verður ekki undir neinum kringumstæðum umborið í starfsumhverfi sveitarfélagsins. Sveitarfélagið lítur þátttöku og/eða afskiptaleysi starfsfólks í einelti, kynbundnu ofbeldi og/eða kynbundnu- og kynferðislegri áreitni alvarlegum augum. Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki ofbeldi og/eða áreitni. Sveitarfélagið starfar eftir eineltisstefnu þar sem verklagsreglur vegna eineltis, áreitni eða ofbeldis hafa verið skilgreindar.“
Í eineltisstefnu sem samþykkt var í bæjarstjórn árið 2013 segir að markmið hennar sé „tryggja að gripið verði til aðgerða, komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um einelti, kynferðislega áreitni eða annað ofbeldi á vinnustað.“ Þetta er mjög afdráttarlaust orðalag um viðbrögð við kynferðislegri áreitni á vinnustað, en eins og fram hefur komið átti umrætt brot sér stað í vinnuferð starfskvenna frá Hornafirði í Reykjavík.
Bæjarstjóri hefur ekki svarað fyrirspurn DV um málið og neitaði að tjá sig um það við Mannlíf. DV hefur ekki upplýsingar um hver aðkoma bæjarstjóra var að málinu né hvort fjallað var sérstaklega um það í bæjarstjórn og þá hvernig. Hins vegar liggur fyrir að gerandinn í málinu var hvorki send í leyfi né sagt upp allt frá því atvikið átti sér stað og var kært til lögreglu í apríl árið 2019 og þar til í marsmánuði á þessu ári er starfshagir gerandans breyttust af öðrum ástæðum, eins og áður greinir frá.
Þolandinn í málinu hafði sagt upp störfum áður en atvikið átti sér stað en hún fluttist undir eins frá staðnum í kjölfar atviksins og hætti samstundis störfum, vann ekki uppsagnarfrest. Í texta dómsins í kynferðisbrotamálinu kemur fram að pressa hafi verið sett á hana um að koma aftur til vinnu. Einnig kemur fram að hún var komin í annað starf:
„Brotaþoli hefði ekki snúið til baka á vinnustað sinn eftir þetta og hún í framhaldi flutt úr sveitarfélaginu. Hún hefði verið í veikindaleyfi vegna […] út af því sem á undan vargengið með ákærðu. Hún hefði á sama tíma mætt takmörkuðum skilningi vinnuveitanda og sífellt verið haft samband við hana út af vinnutengdum málefnum, þar á meðal af yfirmanni hennar sem tengdist ákærðu fjölskylduböndum. Mikil pressa hefði verið sett á hana að koma aftur til vinnu. Brotaþoli hefði síðar fundað í Reykjavík með staðgengli fyrrgreinds yfirmanns og samkomulag orðið um að hún ynni uppsagnarfrest út maí í fjarvinnu. Á þeim tíma hefði hún verið komin með annað starf en það hefði verið frágengið áður en meint brot ákærðu átti sér stað“