Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í gær mann til þess að greiða fórnarlambi sínu úr líkamsárás í júlí 2012 þrjár milljónir í bætur vegna afleiðinga árásarinnar.
Árásarmaðurinn var dæmdur fyrir árásina árið 2015 í sakamáli, og var því ekki tekist á um hvort árásin hafi átt sér stað eða um sekt árásarmannsins í þessu máli.
Brotaþoli krafðist í málinu 11 milljóna vegna miska- og skaða í málinu en hann kvaðst hafa verið frá vinnu í 452 daga vegna árásarinnar. Hins vegar lá fyrir í málinu að maðurinn hefði verið líkamlega veikur fyrir árásina, en hann gekkst undir aðgerð í október árið 2011, tæpu ári áður en ráðist var á hann.
Var því um það tekist fyrir dómi hvort líkamlegt ástand mannsins í kjölfar árásarinnar og skert starfsgeta hans hefði verið bein afleiðing árásarinnar, eða hvort heimfæra mætti ástand mannsins á aðgerðina að hluta eða að fullu.
Niðurstaða dómsins var að árásin hefði vissulega leitt af sér versnun, en að hún væri líklega vægari en maðurinn vildi láta í sinni kröfugerð.
Var brotaþola því dæmdar bætur úr hendi árásarmannsins sem þó námu aðeins hluta af þeim kröfum sem hann hafði uppi í málinu, eða þremur milljónum.