fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Domino’s hækkar verðið á þriðjudagstilboði – „Aldrei gaman að hækka verð“

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 26. október 2021 11:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag urðu ákveðin tímamót í íslenskri skyndibitasögu, hið vinsæla þriðjudagstilboð hjá Domino’s hækkaði um 100 krónur. Þetta er í fyrsta sinn sem pizzurisinn hækkar verðið á tilboðinu síðan það kom fyrst fram á markað árið 2010.

Magnús Hafliðason, forstjóri Domino’s Pizza á Íslandi, segir í samtali við DV að ákvörðunin um að hækka verðið á tilboðinu hafi ekki verið auðveld. „Nei, þetta var það náttúrulega ekki. En það er líka bara gaman að hugsa til þess að við erum búin að vera með þetta tilboð í að verða 11 ár. Þegar við fórum af stað árið 2010 þá var konseptið þriðjudagstilboð ekki til,“ segir Magnús.

„Ef þú hugsar um breytingarnar sem hafa orðið á markaðnum síðan þá, í dag eru nánast allir pizzustaðir landsins búnir að herma eftir okkur, í einu eða öðru formi. Hamborgarastaðir og kjúklingastaðir líka, þú getur farið nánast hvert sem er, jafnvel á fínni veitingastaði, og fengið þriðjudagstilboð. Það segir líka svolítið til um hvað við höfum gert til að bæta hag neytenda í gegnum árin.“

Hækkanir í öllum liðum

Magnús bendir á að síðan tilboðið kom fyrst fram hafa bæði verðlagsvísitalan og launavísitalan hækkað mikið. „Þetta er náttúrulega gríðarlega vinsælt tilboð og hefur haldist gríðarlega stöðugt undanfarin ár. En á þessum tíma erum við að horfa á að verðlagsvísitalan hefur farið 40% og launavísitalan upp um 90%, eitthvað í þá áttina, og við höfum alltaf haldið okkur í þúsund kallinum,“ segir hann.

„Við bara urðum að hækka núna, það er búið að vera mikið um hækkanir síðustu ár, í öllum liðum eins og þessar tvær vísitölur gefa til kynna og það á við um okkur eins og alla aðra. Svo eru auðvitað hækkanir núna af ýmsum ástæðum að fara að dynja á fyrirtækin í landinu.“

Ódýrara í dag en árið 2010

Ljóst er að tilboðið varð einhvern tímann að hækka. Magnús er þó á því að tilboðið sé ennþá gott og í rauninni betra en það var árið 2010. „Við hugsuðum með okkur að þessi tími myndi koma. Við vorum búin að taka rúmlega 10 ár á sama verðinu og við teljum að þetta sé ennþá frábær díll. Ég meina í rauninni er þetta ódýrara í dag en þetta var árið 2010, því laun hafa hækkað langt umfram og við höfum haldið verðinu niðri,“ segir hann.

„Ef maður myndi horfa í meðalmanninn og meðal launin árið 2010 og núna þá gæti viðkomandi fengið að mig minnir 60% fleiri þriðjudagstilboð fyrir mánaðarkaupið, ef þú horfir á það þannig. Og innihaldið hefur auðvitað ekkert breyst, þetta er alltaf bara miðstærð með þremur áleggstegundum, þannig við höfum ekkert verið að breyta því heldur.“

Þúsund króna seðill og 100 kall í klinki ekki vandamál

Magnús segir þá að það sé ekki gaman að hækka verð, það hafi þó verið nauðsyn. „Það er aldrei gaman að hækka verð. Ég held við höfum gert vel fyrir marga að halda þessu niðri svona lengi en bara því miður þá verðum við að færa okkur upp núna.“

Þegar Domino’s byrjaði fyrst með tilboðið var hluti af markaðssetningunni að fólk þyrfti aðeins einn þúsund króna seðil til að kaupa tilboðið. Magnús hefur þó ekki áhyggjur af því að fólk geti ekki lengur keypt tilboðið með einum seðli.

„Í dag auðvitað er þetta orðið gjörbreytt, langflestar af pöntununum okkar fara í gegnum netið og kortagreiðslur eru yfir 95% af öllum greiðslum. Þannig það hefur kannski ekki sömu áhrifin, þú þarft ekki að mæta með þúsund kall í seðli og svo 100 kall í klinki, þetta er aðeins breytt umhverfi frá því sem var.“

„Erfiðara að finna ódýrari máltíð“

Með hækkandi verði er alltaf áhætta á því að fólk færi viðskipti sín annað, Magnús vonar þó að fólk sjái hag sinn í því að versla þriðjudagstilboðið áfram hjá Domino’s.

„Maður veit auðvitað aldrei og fólk getur auðvitað tekið ákvörðun um að færa sig eitthvað til en við vonum og reiknum með því að fólk sjái hag sinn í því að halda áfram. Því þrátt fyrir allt, þó við séum að hækka núna, þá er þetta ennþá frábært virði sem fólk er að fá út úr þessu tilboði. Tvær miðstærðir á 2.200 krónur sem dæmi fyrir kannski fjögurra manna fjölskyldu, það er erfiðara að finna ódýrari máltíð.“

Að lokum bendir Magnús á að í dag er einmitt þriðjudagur og tilboðið er því í gildi, á hinu nýja verði. „Það er þriðjudagur í kvöld, um að gera að fá sér pizzu!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði