Þeir telja að hér sé um eitthvað nýtt stjarnfræðilegt fyrirbæri að ræða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá University of Sydney.
„Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt,“ segir doktorsneminn Ziteng Wang, sem stendur á bak við nýja rannsókn um þetta fyrirbæri sem hefur fengið hið óþjála nafn ASKAP J173608.2-321635 en það eru hnit þess á himninum.
Hvað sem þetta er þá hegðar það sér á áður óþekktan hátt og sendir frá sér undarleg merki. Vísindamennirnir benda á háa skautun fyrirbærisins og að það sendi frá sér útvarpsbylgjur sem eru misöflugar. „Merkið kviknar og slökknar á algjörlega tilviljanakenndum tímapunktum,“ segir Wang.
Þetta fyrirbæri uppgötvaðist með útvarpssjónaukanum CSIRO‘s ASKAP í vesturhluta Ástralíu. Tilvist þess var síðan staðfest með MeerKAT útvarpssjónaukanum sem er í Suður-Afríku.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu The Astrophysical Journal.