fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Opna sig um byrlanir eftir fullyrðingu Birgittu Lífar um faraldur á Íslandi – „Það er fokking HEPPNI að ég vaknaði daginn eftir“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 23. október 2021 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi skemmtistaðarins Bankastræti Club, sagði í gær að byrlunum hafi fjölgað verulega á skemmtistöðum í miðbæ Reykjavíkur undanfarnar helgar og líkti ástandinu við faraldur.

Þegar talað er um byrlanir þá er verið að vísa til þess að eitthvað efni, sem hefur oft sljóvgandi áhrif, og jafnvel fíkniefni eru sett í drykk einstaklinga án þeirra vitundar og samþykkis. Þetta er gjarnan notað sem liður í því að koma fólki í ástand þar sem hægt er að brjóta gegn þeim, allt frá því að ræna það yfir í að beita það kynferðisofbeldi.

Yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu og eigendur skemmtistaða og pöbba í Reykjavík sem Vísir ræddi við í kjölfar fullyrðingar Birgittu könnuðust þó ekki við meintan faraldur.

Hvort sem um faraldur eða ekki er að ræða er ljóst að byrlanir eiga sér stað á íslensku skemmtanalífi. Eru það þá oftast konur sem verða fyrir barðinu á slíku. Fjölmargt hefur lent í byrlunum sjálft, orðið vitni af áhrifum byrlanna hjá vinum og kunningjum, eða þekkja til fólks sem hefur lent í slíku.

Fjölmörgum slíkum sögum hefur verið deilt á Twitter. DV tók nokkrar þeirra saman en þær varpa ljósi á raunveruleikan sem við Íslendingar búum við.

TW – Frásagnirnar hér að neðan varða byrlanir á skemmtanalífinu og geta komið illa við viðkvæma. 

Heppni að vakna daginn eftir

Ein kona lýsir því að henni hafi tvisvar verið byrjað. „Mér leið undarlega, fór inn á bað á skemmtistaðnum sem ég var á, ældi, vildi ekki að gæinn sem ég var nýkomin að hitta sæi mig svona, fór heim í taxa. Þar ældi ég meira, lognaðist útaf og vaknaði sem betur fer bara daginn eftir með ógeðslegan hausverk.

Þegar ég var þarna ælandi hafði ég engan mátt til að leita mér hjálpar, eða að fatta hvað var í gangi, því hausinn fer í algjört rugl. Það er fokking HEPPNI að ég vaknaði daginn eftir, í alvöru, ég hefði getað dáið.“

Gat ekki gert sig skiljanlega

Önnur tekur fram að bæði henni sem og mörgum vinkonum hennar hafi verið byrlað. Hún deilir eftirminnilegustu sögunni er vinkona hennar var hætt komin eftir byrlun.

Kunningi konunnar hafði samband því sameiginleg vinkona þeirra var í annarlegu ástandi og þurfti að komast heim.

„Mér leist ekki á þetta og bað hann að koma með hana frekar heim til mín því ég vildi ekki að hún færi heim í þessu ástandi þar sem hún bjó ein. Hann kemur með hana heim til mín og hún var gjörsamlega lömuð og nú hef ég oft aðstoðað áfengisdauða manneskju og ég var alveg nokkuð viss um að m.v. fyrri reynslu af byrlum að hún væri meira en drukkin. 

Ástandið var svo slæmt að ég endaði á að hringja á sjúkrabíl, sem betur fer og fór hún með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Ég gat ekki hugsað mér að hún myndi vakna ein þannig ég fer svo niður á bráðamóttöku á mínum bíl. 

Ég óskaði þar eftir að hún fengi blóðprufu til þess að skoða hvað henni var byrlað. Það var ekki hægt og ekki víst að eitthvað myndi enn vera í þvaginu þegar hún myndi vakna. 

En hún var í það annarlegu ástandi að það tók læknana nokkrar tilraunir að hrista hana, slá hana í andlitið og að lokum rankaði hún aðeins við sér þegar þrýst var á einhvern sérstakan punkt á kviðasvæði. 

Hún gat ekki gert sig skiljanlega, datt inn og út og vissi ekkert hvað gekk á. Hún var svo undir eftirliti ( í nokkrar klst) þar til henni var treyst að fara heim. 

Læknarnir töldu líklegt m.v. ástand að hefði hún farið heim að sofa hefði hún líklega hætt að anda.“

Ældi í margar klukkustundir

Enn önnur var aðeins 18 ára þegar henni var byrlað. Það var henni til happs að hún hafði í hús að vernda nálægt skemmtistaðnum þar sem henni var byrlað.

„Mér var einu sinni byrlað, ég fann fyrir því þegar mér fór að líða skringilega. Var að gista hjá frænku minni sem átti heima literally 30 metra frá skemmtistaðnum. Ég komst heim til hennar í öryggi en strax í blackout þetta gerðist svo hratt. Ældi í margar klst. Ég var fkn 18 ára?!“

Þaulskipulögð byrlun

Ein kona lýsir ógnvekjandi reynslu sinni af byrlun þar sem ljóst var að athæfið var þaulskipulagt.

„Það var alveg ljóst að byrlun mín var þaulskipulögð. Hann bað um að kaupa handa mér drykk, en ég neitaði. Eftir suð sagði ég okey, en í flösku og með því skilyrði að ég tæki við henni af barþjóninum.

Á þessum tímapunkti var Ellefan að loka svo út gekk ég með flöskuna ásamt tveimur vinkonum. Þær drukku einnig úr henni en ekki jafn mikið og ég. Í einfeldni héldum við að það reyndist ekki jafn auðvelt að byrla ofan í flösku. Það var ekki raunin,“ segir hún.

Hún gaf sig svo á tal við manninn sem keypti handa henni drykkinn. Innan skamms höfðu vinir hans umkringt hana og fann að hún var að missa tenginguna við raunveruleikann. Það varð henni til bjargar að hún hafði náð að hringja í vin sinn sem áttaði sig á að eitthvað mikið væri að.

„Þegar hann fann mig fyrir utan Þjóðleikhúsið var hópur manna að leiða mig inn í leigubíl Hann nær að segja þeim að við séum systkin og við það sleppa þeir mér. Hann þurfti af öllum mætti að styðja mig heim til sín því ég fékk astmakast (er ekki með astma), var ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Allt snérist, gat varla talað og ældi stöðugt. Um morguninn bættist við sá allra verstu höfuðverkur sem ég hef upplifað og varði hann í yfir sólarhring. 

Næstu dagar voru mjög þungir, fann bara fyrir andlegum kvölum. Það á víst að heita niðurtúr og grunaði vini mínum að byrlunin hefði verið sýra miðað við þau einkenni sem ég sýndi. Vinkonur mínar sluppu ekki heldur, þær drukku um 2-3 sopa hvor og fengu sömu einkenni en mildari. Ég á þessum gamla vini margt að þakka! Hann vissi að eignarréttur karlmanna var rétta leiðin til að ná mér frá ofbeldismönnunum. Útsjónarsemi og innsæi hans bjargaði mér.“ 

Rugluðust á drykkjun og lentu í byrlun

Karlmenn hafa líka deilt frásögnum af byrlunum. Eftirfarandi tvær frásagnir eru frá mönnum sem lentu í því að drekka drykk sem hafði verið ætlaður konu.

„Ég drakk einu sinni óvart drykk sem hafði verið byrlað þegar vinkona mín tók óvart bjórinn minn. Væri svo gaman að geta sagt að þarna hefði ég nú aldeilis bjargað henni, en ég varð bara ógeðslega fucked og fór á autopilot heim til mín ælandi, grátandi og algerlega varnarlaus.“ 

„Um helgina lenti ég í lífsreynslu sem ég óska engum. Var með nokkrum félögum á skemmtistað. Drykkurinn minn ruglaðist við drykk hjá stelpunni sem ég var að spjalla við. 30 mín seinna gat ég ekki hreyft mig né talað, sem betur fer voru góðir aðilar á klósettinu sem hjálpuðu mér. 

Ég náði rétt svo að slá inn númerið hjá mömmu en mér tókst ekki að segja henni hvar ég væri staddur. Það héldu eflaust margir að ég væri ofurölvi, en ég vildi ekki trúa því sjálfur því 30 mín fyrr hafði ég fulla stjórn á sjálfum mér, talaði skýrt og eðlilega.“

Rúmlega einn af hverjum fimm lent í byrlun

Einn tístari ákvað að gera óformlega könnun á því hvort að aðrir tístarar hafi lent í byrlun. Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 220 svarað og þar greina 23 prósent frá því að hafa lent í byrlun og rúmlega 16 prósent telja miklar líkur á að hafa lent í slíku.

Ógnvekjandi lífsreynsla

Blaðamaður DV hefur sjálf orðið vitni af áhrifum byrlanna oftar en einu sinni og getur vitnað um það að slíkt er ógnvekjandi lífsreynsla, ekki bara fyrir þá sem upplifa hana heldur líka fyrir þá sem verða vitni af afleiðingunum. Af þeim sögum sem þolendur og vitni byrlana hafa deilt má sjá að áhrifin af byrlunum geta verið mismunandi, enda er mismunandi efnum beitt við byrlanir. Algeng einkenni eru minnisleysi, svimi, uppköst, kaldur sviti, skert meðvitund og dofi í útlimum, svo dæmis éu tekin.

Erfitt er að greina þessi efni í blóðsýnum þar sem þau eru fljót að fara úr líkamanum. Hins vegar hafa margir þolendur greint frá því að vakna daginn eftir byrlun með mikla líkamlega vanlíðan sem tekur lengri tíma að ganga yfir ef en hin hefðbundna þynnka. Eins glíma þolendur líka við andlega vanlíðan enda hefur verið eitrað fyrir þeim og þar með brotið á þeim sem er töluvert áfall til að takast á við.

Einkenni lyfjabyrlunar geta oft minnt á einkenni ofneyslu á áfengi svo margir hafa upplifað það hjá heilbrigðisstofnunum sem og hjá lögreglu að fullyrðingum þeirra um lyfjabyrlun sé ekki tekið alvarlega heldur skrifað á áfengisneyslu.

Ofangreindar frásagnir eru aðeins lítið brot af þeim frásögnum sem má finna bara á íslenska Twitter. Það er því auðvelt að ímynda sér hversu algengt þetta ofbeldi er orðið. Sem betur fer, þó það sé skökk orðanotkun í þessu samhengi, lenda ekki allir sem hafa orðið fyrir byrlun í frekara ofbeldi. Hins vegar virðist nær ómögulegt vera fyrir þolendur byrlanna að leita réttar síns og í samtali við RÚV í gær greindi Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á kynferðisbrotadeild lögreglu, frá því að hann viti ekki til þess að nokkru sinni hafi verið sakfelld hér á landi fyrir byrlun.

Frá því var greint fyrir nokkrum árum að Neyðarmóttaka Landspítala taki ekki blóðsýni úr einstaklingum sem grunar að þeim hafi verið byrlað nema ef málið hefur verið kært til lögreglu. Þolendur byrlanna mega líka oft sæta fordómum heilbrigðisstofnanna sem og lögreglu þegar þau leita sér aðstoðar, miðað við þær frásagnir sem hafa birst á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum undanfarin ár, og eru oft ekki tekin alvarlega.

Nú hafa fregnir borist undanfarið frá Bretlandi að konur þar í landi hafi verið sprautaðar með nauðgunarlyfjum á skemmtanalífinu og hefur skiljanlega gripið um sig skelfing meðal kvenna þar í landi. Ekkert er þó vitað til þess að slíkt hafi átt sér stað hér á landi.

 

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít