„Sem betur fer er þetta sjaldgæft,“ segir Saga Lluvia Sigurðardóttir, eigandi unaðstækjaverslunarinnar Losti.is, en maður einn sýndi dólgslega og ógnandi framkomu inni í versluninni að Borgartúni 3 um kvöldmatarleytið í gærkvöld.
„Við erum nýbúin að lengja opnunartímann okkar til kl. 10 á fimmtudagskvöldum hérna í Borgartúninu. Á þeim kvöldum erum við með ýmsa vikulega viðburði og námskeið. Fólk heldur að við séum oft að verða fyrir óþægilegu áreiti vegna þess að við erum að reka kynlífstækjaverslun og bjóðum upp á mjög unaðsmiðuð námskeið, t.d. um hvernig fólk eigi að fá meira út úr kynlífinu, munnmakanámskeið og ýmislegt – en veruleikinn er sem betur fer sá að áreiti af einhverju tagi heyrir til undantekninga,“ segir Saga.
Því miður varð ein af þessum undantekningum í gærkvöld. „Það kom hingað inn maður og lét fremur ófriðlega og var með óviðeigandi spurningar. Hann spurði hvað „blowjob“ kostaði, spurði um nudd og greip um kynfæri sín. Þannig vildi til að það voru svipur hérna á borðum af því við vorum að fara að kenna um „kink og fetish“ á námskeiði síðar um kvöldið, og maðurinn tók eina af svipunum og sló henni fast í borðið. Hann var ógnandi og þetta var verulega óþægilegt. Við vorum þrjár hérna og sem betur fer tókst okkur að koma honum út,“ segir Saga. Þurfti hún að hafa dyrnar að versluninni læstar þó að búðin væri í raun opin.
Saga hringdi í lögreglu sem kom ekki á vettvang fyrr en maðurinn var farinn. Áður hafði hann farið á veitingastað við hliðina en þaðan var honum fleygt út. Lögreglumaður sem mætti að lokum á svæðið kannaðist vel við manninn af lýsingum á honum og framferði hans. Því miður hélt maðurinn áfram ógnandi tilburðum sínum eftir að konunum hafði tekist að ýta honum út. Hann stóð við gluggann og starði inn á konurnar og tók síðan að berja í glugga.
„Ég viðurkenni að þetta var óþægilegt og þó að þetta sé sjaldgæft er neikvætt áreiti aðeins byrjað að færast í aukana, ég veit ekki hvort staðsetningin spilar þarna inn í,“ segir Saga.
Saga segir að maðurinn hafi verið á milli þrítugs og fertugs og hann hafi verið í annarlegu ástandi. Er hún leit út um gluggann sá hún að tveir aðrir menn voru með honum. Henni stóð ekki á sama um þetta, upplifunin var óþægileg.
Saga undirstrikar hins vegar að almennt sé fólk afar jákvætt gagnvart starfsemi hennar og áhugasamt um hana. „Fólk er orðið opinskárra og frjálslegra gagnvart þessu og ég er ánægð með hvað námskeiðin okkar hafa fengið jákvæða athygli, neikvæðar athugasemdir um þau eru afar sjaldgæfar,“ segir hún.
„Fólk hefur verið ófeimið við að mæta á námskeið og sækja sér fræðslu um kynlíf og unað, á námskeiðskvöldum er oft fullt út úr dyrum hér,“ segir hún ennfremur og er ákveðin í að láta þetta leiðinlega atvik ekki slá sig út af laginu.
„Það er líka gott að finna þessa kvennasamstöðu sem myndast hér þá sjaldan að hingað kemur fólk í annarlegu ástandi. Konur skynja hættuna og standa saman og viðskiptavinir hafa hjálpað okkur við að ýta óþægilegum mönnum út úr versluninni.“