Byrlunarfaraldur geisar í miðbæ Reykjavíkur samkvæmt Birgittu Líf Björnsdóttur, eiganda skemmtistaðarins Bankastræti Club. Þetta kemur fram í viðtali mbl.is við Birgittu en þar segir hún að byrlunum í miðbænum hafi fjölgað mikið undanfarnar helgar.
Töluverð umræða um byrlanir hefur verið í gangi á samfélagsmiðlum eins og Twitter að undanförnu, einmitt í ljósi þess að þær virðast vera algengari en áður. Umræðan er ekki bara í gangi hér á landi heldur einnig erlendis en þar hafa verið að koma fram nýjar aðferðir til byrlana, til að mynda með stungum.
Birgitta segist vita um nokkur tilvik, bæði á Bankastræti Club og á öðrum stöðum í miðbænum, þar sem byrlun hefur átt sér stað. Hún segir að svo virðist vera sem það sé að færast í aukana að fólki sé byrlað á skemmtistöðum í Reykjavík. „Það er eins og það sé einhver faraldur í gangi,“ segir hún samtali við blaðamann mbl.is.
Bankastræti Club tekur byrlunum mjög alvarlega samkvæmt Birgittu sem tekur fram að starfsmenn skemmtistaðarins séu vakandi fyrir einkennum byrlana.
„Síðan er spurning hvort það sé verið að setja ofan í drykki eða hvort það sé eitthvað nýtt í gangi, þannig að við fylgjumst mjög mikið með og höfum ítrekað við starfsfólkið okkar einkenni byrlana og að vera vakandi fyrir gestum.“
Birgitta hefur meira að segja sjálf verið vitni að því þegar stelpu var byrlað á staðnum. „Ég var persónulega sjálf á staðnum eitt skiptið þegar það var haldið á stelpu út og ég beið úti með henni ásamt starfsmanni á meðan við biðum eftir sjúkrabíl,“ segir hún.
Þá segir Birgitta að þar sem byrlanir hafa komið upp á fleiri en einum stað sé það greinilegt að þær einskorðast ekki við einhvern einn aðila. Hún og starfsmenn staðarins séu að skoða hvort þörf sé á frekari aðgerðum en dæmi er um að á skemmtistöðum erlendis sé verið að kalla eftir því að leitað sé á fólki áður en það fer inn á staði.
„Það er spurning hvort að það sé næsta skref – að það sé bara leitað á öllum.“