Einn fremsti hestaíþróttamaður Íslands, Jóhann Rúnar Skúlason, hefur verið dæmdur fyrir heimilisofbeldi í Danmörku, skv. frétt Mannlífs.
Er Jóhann sagður hafa verið með ökklaband um tíma við afplánun dómsins. Málið snýst um líkamsárás Jóhanns á fyrrverandi eiginkonu sína.
Jóhann er margfaldur heimsmeistari á mótum íslenska hestsins og hefur unnið til fjölda annarra verðlauna. Hann hefur verið tilnefndur til vegtyllunnar Íþróttamaður ársins.
Þrátt fyrir dóminn er Jóhann enn í landsliði Íslands í hestaíþróttum. „Jóhann er ríkjandi heimsmeistari og á sem slíkur sjálfkrafa sæti í landsliðinu, enda á hann rétt á að verja titla sína á næstu heimsleikum, reglum samkvæmt,“ segir Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, í samtali við Mannlíf. Segir hann þó mál Jóhanns vera í skoðun.