ABC News skýrir frá þessu. Cleo og foreldrar hennar og yngri systir sváfu í tjaldi þessa nótt. Foreldrarnir í einu herbergi og systurnar í öðru. Um klukkan 01.30 vaknaði Cleo og bað móður sína um vatn. Þær fóru síðan aftur að sofa.
Þegar móðirin, Ellie Smith, vaknaði um klukkan sex var Cleo horfin en yngri dóttirin var enn í vöggu sinni. „Ég fór inn i hitt herbergið og rennilásinn var alveg opinn og Cleo var horfin. Tjaldið var alveg opið,“ sagði hún í samtali við 9 News.
Lögreglan telur að Cleo hafi ekki geta opnað tjaldið því hún er það lágvaxinn að hún getur ekki náð alla leið upp í rennilásinn sem var í efstu stöðu þegar búið var að renna honum alveg upp. Lögreglan telur því mestar líkur á að Cleo hafi verið numin á brott.
„Miðað við þær upplýsingar og gögn sem við höfum aflað og þeirrar staðreyndar að leitin hefur staðið yfir í nokkurn tíma þá teljum við að hún hafi verið numin á brott úr tjaldinu,“ sagði Rob Wilde, lögreglufulltrúi, á fréttamannafundi.
Á fundinum var einnig tilkynnt að yfirvöld hafi ákveðið að heita einni milljón ástralskra dollara, sem svarar til tæplega 100 milljóna íslenskra króna, í verðlaun fyrir upplýsingar sem leiða til þess að Cleo finnist. „Við erum vongóð um að Cleo sé á lífi en við óttumst alvarlega um öryggi hennar,“ sagði Wilde.
Col Blanch, lögreglustjóri, sagði að „einhver hljóti að vita eitthvað“ um hvað kom fyrir Cleo. „Einhver á svæðinu veit hvað kom fyrir Cleo. Einhver býr yfirvitneskju sem getur komið að gagni og nú eru milljón ástæður til að stíga fram,“ sagði hann einnig.
Lögreglan hefur áður skýrt frá því að hvorki móðir Cleo, Ellie Smith, né unnusti hennar, Jake Gliddon, séu grunuð í málinu og að engin ástæða sé til að telja að þau hafi logið til um málsatvik. „Það er ekkert sem bendir til að saga þeirra sé ekki nákvæm og sönn,“ hefur CNN eftir Jon Munday, talsmanni lögreglunnar.