Sirajuddin Haqqani, innanríkisráðherra í stjórn Talibana, hét þessu á fundi með nokkrum tugum ættingja sjálfsmorðssprengjumanna sem var haldinn á Intercontinental hótelinu í Kabúl á mánudaginn. Haqqani hrósaði „píslarvottunum“ sem hann kallaði svo en þar vísaði hann til liðsmanna Talibana sem frömdu sjálfsmorðssprengjuárásir.
Haqqani sagði þá vera „hetjur íslam og landsins“. Í fundarlok afhenti hann hverri fjölskyldu 10.000 afghani, sem er gjaldmiðillinn í Afganistan. Upphæðin svarar til um 15.000 íslenskra króna. Að auki hét hann hverri fjölskyldu landskika.
Þetta kemur fram í færslu talsmanns innanríkisráðuneytisins á Twitter. Á myndum sem fylgja færslunni sést Haqqani faðma ættingja sjálfsmorðssprengjumannanna.
Talibanar tóku völdin í Afganistan þegar herlið Vesturlanda hurfu frá landinu. Þeir reyna nú að koma á diplómatískum samskiptum við önnur ríki en flest hafa lítinn sem engan áhuga á að eiga í samskiptum við Talibana. Þeim hefur verið sagt að ef þeir vilja öðlast viðurkenningu alþjóðasamfélagsins verði þeir að virða réttindi stúlkna og kvenna.
AP-fréttastofan segir að loforðið um að greiða ættingjum sjálfsmorðssprengjumanna verðlaun fyrir verk þeirra geti verið til marks um ósætti í röðum Talibana um hver stefna þeirra eigi að vera. Þeir reyni að sýnast vera ábyrgir valdhafar sem tryggja öryggi allra borgara og þeir fordæma sjálfsmorðsárásir Íslamska ríkisins. Á hinn bóginn hrósa þeir slíkum árásum sem eru framdar fyrir þeirra eiginn málstað.