fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Vigdís ætlar að verða borgarstjóri: „Partýið er búið!“

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 25. mars 2018 12:00

Vigdís Hauksdóttir Mynd Ari Brynjólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vigdís Hauksdóttir er öllum kunn. Hún sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á árunum 2009 til 2016 og var þegar orðin ein umtalaðasta og umdeildasta kona landsins þegar hún varð formaður fjárlaganefndar árið 2013. Hún sagði skilið við stjórnmálin fyrir kosningarnar 2016 en nú er hún mætt aftur sem borgarstjóraefni Miðflokksins. Vigdís er stórhuga og tók blaðamann DV með sér í bíltúr um borgina til að taka skóflustungur þar sem hún ætlar að láta hendur standa fram úr ermum.

Byrjað í Húsasmiðjunni Fyrsta verkefnið var að útvega stunguskóflu.
Mynd/Ari Brynjólfsson

„Ég er á litlum sparneytnum tvinnbíl þannig að ekki hafa áhyggjur af mengun,“ segir Vigdís glaðbeitt. Leið okkar liggur í Húsasmiðjuna til að kaupa stunguskóflu og berst þá talið að samgöngumálum, það er alveg ljóst að Vigdís er ekki hrifin af núverandi meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar. „Það er ófremdarástand hvernig búið er að þrengja að fjölskyldubílnum og alveg óskiljanlegt. Sjáðu hérna, við erum ekki á háannatíma en það er samt umferðarkaós. Það er hægt að gera svo ótalmargt til að laga þetta en fyrst þarf að breyta um stefnu. Líf Magneudóttir, oddviti VG, sagði í Silfrinu um síðustu helgi að meirihlutinn „ætlaði“ að flytja 25 þúsund manns inn í strætó. Ætla þau að þvinga fólk? Það þýðir ekkert að tala svona, fólk verður að vera raunhæft.“

Skóflustunga að nýju þjóðarsjúkrahúsi

Við göngum inn í Húsasmiðjuna þar sem Vigdís heilsar starfsmanni með nafni, þess má geta að hún var með blómaskreytinganámskeið um jólin í Blómavali í sama húsi. Vigdís velur finnska stunguskóflu sem hún setur í aftursætið. Nú erum við á leið upp að Keldum, þar ætla Vigdís og Miðflokkurinn að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús. Keldur eru ekki svæði sem margir leggja leið sína til, útsýnið nær yfir Stórhöfða og Gullinbrú. Vigdís bendir á hús Orkuveitu Reykjavíkur og hlær, upp veginn sjást hitaveitutankarnir í Grafarholti. „Keldur henta vel fyrir spítala, við í Miðflokknum í Reykjavík viljum hafa spítalann í sveitarfélaginu. Það gengur ekki að hafa spítala þjóðarinnar í miðbænum í allri menguninni.“

Þjóðarsjúkrahús Vigdís tók fyrstu skóflustunguna að nýjum spítala á Keldum. Mynd/Ari Brynjólfsson

Vigdís leggur bílnum, klifrar yfir girðingu og fer með skófluna út á grasblett.

„Nýr spítali á Keldum! Ríkið seldi Vífilstaðalandið á undirverði til Garðabæjar þannig að við krefjumst þess að ríkið selji Keldnalandið til Reykjavíkur á undirverði, fordæmið er komið, annað yrði brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar!“

Vigdís tekur skóflustungu. „Til hamingju með nýjan spítala!“ Hún gengur svo frá grasinu sem hún var að ljúka við að grafa upp, Vigdís hefur á orði að reynslan úr garðyrkjunni komi að góðum notum við þessar aðstæður.

Partíspillir

Eitt helsta markmið Vigdísar sem nýr borgarstjóri verður að taka til í kerfinu. „Borgin er með einn starfsmann á hverja fjórtán íbúa, það sjá það allir að þetta er of mikið. Ég ætla ekki að skera niður fólkið á gólfinu, hagræðingin mun beinast að stjórnendunum. Þegar ráðhúsið var byggt var markmiðið að þar yrðu allar skrifstofur borgarinnar. Árið 2018 eru skrifstofurnar í tæplega hálfs kílómetra löngu húsi á sex hæðum í Borgartúni. Ég ætla að fara inn á hverja einustu skrifstofu og sjá hvernig er hægt að hagræða. Þetta er allt í lagi, ég fæ hvort eð er engin atkvæði frá embættismönnum,“ segir Vigdís og hlær.

„Fyrsta málið er að koma rekstrinum í lag, svo þegar við erum búin að taka til þá getum við farið að tala um að lækka útsvar. Það ætti að vera hægt á síðari hluta kjörtímabilsins. Útsvarið er núna að fara í einhverja ósýnilega hít, tekjurnar í botni en samt er borgin röngum megin við núllið. Þetta heitir á góðri íslensku eyðslufyllerí.“

Strax í haust Vigdís segir að það sé ekki eftir neinu að bíða, hún stefnir á að byrjað verði að byggja ódýrar íbúðir í Úlfarsárdal strax í haust. Mynd/Ari Brynjólfsson

Þannig að þú ætlar að binda endi á fylleríið?

„Já, ég er partíspillirinn! Partíið er búið.“

Búin að finna 10–15 milljarða

Við keyrum framhjá verslun Bauhaus og stöðvum fyrir utan byggðina í Úlfarsárdal. Hér ætlar Vigdís að reisa ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk. „Af hverju má ekki þétta byggðina hér? Nú liggur öll umferðin niður í bæ, það sem við þurfum að gera er að snúa umferðinni við.“ Hún fer út úr bílnum og tekur aðra skóflustungu. „Hér mun rísa ódýrt húsnæði! Hættum þessum töfum, innviðirnir eru klárir, byrjum að byggja í haust!“

Stefnuskrá Miðflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar er enn í vinnslu en Vigdís var tilbúin að upplýsa að þar verði farið í róttæka hagræðingu. „Ég boða það að hið lögbundna hlutverk Reykjavíkur verði endurskoðað strax eftir kosningar, farið verði ofan í hvern krók og kima til að sjá hvar er hægt að hagræða. Eftir páska kynni ég svo fjáröflunarleiðir, hvar ég er búin að finna 10 til 15 milljarða án þess að segja upp einum starfsmanni. Bíðið spennt.“

Vigdís keyrir eftir Sæbrautinni, í vegkantinum er eldri maður að tína rusl. „Nei, sjáðu hvað þessi er flottur að tína rusl í skítugu borginni hans Dags.“

„Ég hélt að þú værir túristi!“

„Nei, er þetta þú!“ Kona á gangi í Laugarnesinu kallaði að Vigdísi, hún faðmaði hana svo að sér þegar hún uppgötvaði hver var þarna á ferð. Mynd/Ari Brynjólfsson

Við erum komin út á Laugarnes, þar ætlar Vigdís að leggja Sundabraut og tengja þar með Sæbrautina við Kjalarnes. „Við erum með svakalega flott land upp á Kjalarnesi, hugsaðu þér, það eru 20 ár síðan Kjalnesingar sameinuðust Reykjavík, þá var þeim lofað Sundabraut eftir tvö ár. Það er ekkert búið gera.“

 

Vigdís tekur skóflustungu að Sundabraut, í sömu andrá kallar kona sem á leið hjá í áttina að Vigdísi. „Af hverju ertu að raska jörðinni!?“ Vigdís svarar: „Heldur þú að ég kunni ekki að ganga frá þessu?“ Konan sér hver þetta er: „Nei, er þetta þú! Ég fyrirgef þér strax. Ég hélt að þú værir túristi!“

Á leiðinni til baka berst talið að hugsanlegum samstarfsflokkum í meirihluta borgarstjórnar. Vigdís vill stíga varlega til jarðar þegar kemur að slíkum vangaveltum þar sem ekki er hægt að kjósa aftur fyrr en eftir fjögur ár þó að meirihlutinn springi. „Samfylkingin og Vinstri græn eru sístu kostirnir til samstarfs.“

Hvernig líst þér á að vera borgarstjóri með Eyþór Arnalds og Sjálfstæðisflokkinn þér við hlið?

„Mér myndi hugnast það vel án þess að ganga bundin til kosninga. Mér finnst Miðflokkurinn eiga margt sameiginlegt með Sjálfstæðisflokknum. Ég er hins vegar ekki hrifin af þeirra hugmyndum um byggð í Örfirisey, það gengur gegn okkar hugmyndum um að snúa umferðinni við. Annars hlakka ég til að sjá hvernig kosningarnar fara, ég stefni á stórsigur.“

Kvót:

„Til hamingju með nýjan spítala!“

„Nei, sjáðu hvað þessi er flottur að tína rusl í skítugu borginni hans Dags.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kirkjugarður Hafnarfjarðar að breytast í bílakirkjugarð

Kirkjugarður Hafnarfjarðar að breytast í bílakirkjugarð
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Í gær

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Í gær

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar