Á mánudaginn voru 1.015 andlát af völdum COVID-19 skráð í Rússlandi og hafa aldrei verið fleiri á einum degi síðan faraldurinn skall á. Dánartölurnar hafa hækkað dag frá degi síðustu vikur.
Í gær lagði rússneska ríkisstjórnin til að í eina viku vinni allir heima eða fái frí í vinnu. Þetta á að hjálpa til við að draga úr fjölda smita. Ríkisstjórnin hefur fram að þessu sagt að ekki verði gripið til harðra sóttvarnaaðgerða eins og gert var á síðasta ári en þær komu illa við efnahagslífið og stuðninginn við Vladímír Pútín, forseta.
Samkvæmt opinberum skráningum hafa um 225.000 látist af völdum COVID-19 en yfirvöld hafa lengi verið sökuð um að „fegra“ tölurnar og draga úr alvarleika faraldursins. Tölur sem rússneska hagstofan Rosstat birti fyrr í mánuðinum benda til að rúmlega 400.000 hafi látist af völdum COVID-19. Um 144 milljónir búa í Rússlandi.