Magnús Ólafur Garðarsson, stofnandi og fyrrum stjórnanda United Silicon, hefur verið úrskurðaður persónulega gjaldþrota í Danmörku. Þetta kemur fram í tilkynningu í Lögbirtingublaðinu í dag. Preben Jakobsen, sem er með skrifstofu hjá lögmannsstofunni Gorrissen Federspiel, hafi verið skipaður skiptastjóri þrotabúsins en einnig er tekið fram að dómsúrskurður um gjaldþrot Magnúsar Ólafs nær einnig til eigna hans á Íslandi og í öðrum norrænum ríkjum.
Eins og alþjóð veit var Magnús Ólafur maðurinn á bak við ris og og fall sílikonverksmiðju United Silicon. Gefnar hafa verið út þrjár stefnur á hendur honum vegna meintra fjársvika en í heildina eru þau talin nema um 1,8 milljarð króna.
Magnúsi Ólafi er gefið að sök að hafa stofnað erlent gerviverktökufélag til að draga sér fé, falsað reikninga til að dylja brot sín, brotið gegn lögum um bókhald og ársreikninga og gert tilraun til að villa um fyrir skiptastjóra. Í bland við auðgunarbrotin, sem enn eru til meðferðar innan dómskerfisins, hefur Magnús verið dæmdur fyrir ofsaakstur á Teslu-bifreið sinni með þeim afleiðingum að annar bíll endaði utanvegar og ökumaður slasaðist.
Rannsókn héraðssaksóknara á hinum meintu svikum frumkvöðulsins hefur staðið yfir í tæplega fjögur ár en hún fór af stað í september árið 2017 eftir að stjórn félagsins sendi kæru til embættisins. Í framhaldi tók Arion banki og fimm lífeyrissjóðir yfir starfsemi kísilversins.
Sjá einnig: Fjársvikin tala nema um 1,8 milljarði króna
Magnús Ólafur hefur undanfarin ár átt einbýlishús við Huldubraut í Kópavogi. Húsið er 360 fm að stærð og hefur Magnús haft talsverðar tekjur á að leigja húsið út, meðal annars í gegnum Airbnb. Á dögunum var greint frá því að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi gefið Arion banka grænt ljóst á að krefjast fjárnáms í fasteigninni í mars en bankinn hefur freistað þess að fá greidda skuld félags í meirihlutaeigu Magnúsar upp á tæpar fimm milljónir króna. Magnús reyndist að verjast fjárnámskröfunni með kjafti og klóm en að endingu laut hann í lægra haldi og þurfti að greiða 900 þúsund krónur í málskostnað.